Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fjöldi tilkynninga um heimilisofbeldi enn í hæstu hæðum

26.10.2021 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Yfir tvö hundruð manns fara daglega á vefgátt Neyðarlínunnar vegna ofbeldis. Þar geta þolendur ofbeldis, gerendur og aðstandendur leitað aðstoðar og nálgast fræðslu. Enn fjölgar tilkynningum um heimilisofbeldi til lögreglu og eins tilkynningum til barnaverndar.

Ríkislögreglustjóri opnaði vefgáttina fyrir ári. Að meðaltali hafa 235 manns heimsótt hana á dag, sem er mun meira en búist hafði verið við. Í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra segir að algengt sé að fólk lesi sér til um andlegt ofbeldi og að ungt fólk afli sér upplýsinga um ofbeldi. 600 sinnum hefur heimsókn í vefgáttina leitt til netspjalls við viðbragðsaðila.

Eygló Harðardóttir, fyrrverandi félagsmálaráðherra, er í aðgerðateymi yfirvalda sem hefur það hlutverk að stýra úrfærslu aðgerða gegn ofbeldi. Hún segir það hafa skipt miklu máli í faraldrinum að fólk hefði greiðan aðgang að þjónustu eftir fjölbreyttum leiðum. 

„Neyðarlínan er búin að taka ákvörðun um það að vefgáttin er komin til að vera og hún verður þróuð áfram og fram undan er sérstaklega áhersla á starfrænt ofbeldi en við höfum verið að sjá svona fjölbreyttari og skaðlegri birtingarmyndir af stafrænu ofbeldi,“ segir Eygló. 

17% fleiri tilkynningar til barnaverndar en árið 2019

9.792 tilkynningar bárust barnavernd um landið á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Það eru 2,3 prósent fleiri tilkynningar en á sama tímabili í fyrra og 17 prósent fleiri en á þessu tímabili árið 2019. Tæplega átta hundruð tilkynningar um heimilisofbeldi bárust lögreglu. Í fyrra var tilkynnt um alls 1.049 heimilisofbeldismál, sem er 16 prósentum meira en meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan. Í tilkynningu Ríkislögreglustjóra segir að fjöldi þessara mála sé áfram í hæstu hæðum. 

Eygló segir ekki fyllilega ljóst hvort fleiri beiti ofbeldi en áður eða hvort tilkynningarnar séu fleiri. Rannsóknir bendi þó til þess síðarnefnda. „Það skiptir náttúrulega mjög miklu máli af því að annars er svo mikil hætta á því að ofbeldið verði viðvarandi og það komi upp ítrekunarbrot. Þannig að það er það sem okkur hefur fundist skipta mestu máli með gáttinni og því sem hefur verið að gerast undanfarið í samfélaginu er það að fólk er að tilkynna oftar og meira og veit það að það er aðstoð að fá.“

Samvinna þegar kemur að baráttu gegn kynferðisbrotum

Síðasta ár hefur staðið yfir átak til vitundarvakningar um heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Eygló segir að í þeim málaflokkum hafi skýrt komið fram hve mikilvægt samstarf barnaverndar, félagsþjónustu, heilbrigðiskerfis, lögreglu, neyðarlínu og félagasamtaka sé. Samvinnan skili árangri fyrir þolendur og hún kveðst vona að þegar komi að kynferðisbrotamálum verði hægt að þróa samvinnu á sama hátt. „Ég held að það skipti mjög miklu máli varðandi kynferðisbrotamálin, að við náum að þróa enn frekar þessa samvinnu og samþættingu ólíkra aðila við það að aðstoða þolendur og tryggja það að gerendur hætti að beita ofbeldi og fái þá aðstoð sem þeir þurfa til þess.“