Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fá meðferð við óviðeigandi kynhegðun

Mynd: - - / Creative Commons Creative Common
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins býður upp á meðferð fyrir pilta á aldrinum 13-18 sem eru með þroskafrávik og sýna óviðeigandi kynhegðun. Félagsráðgjafi hjá stöðinni segir að engin úrræði hafi verið fyrir þennan hóp þar til nú, mikil þörf sé fyrir faglega aðstoð sem þessa.

Skilgreiningar á óviðeigandi kynhegðun eru meðal annars þegar barn undir 18 ára aldri tekur þátt í kynferðislegri athöfn án samþykkis eða þegar það nýtir sér yfirburði sína í þeim tilgangi. Þriðjungur kynferðsbrota á börnum eru framin af öðrum börnum, meirihluti þeirra eru með þroskafrávik. 

Meðferðin sem piltunum stendur til boða heitir Keep safe, hún hefur gefið góða raun í nokkrum löndum og var kynnt á málþingi Félagsráðgjafafélags Íslands um ofbeldi í dag. María Jónsdóttir félagsráðgjafi hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er ein þeirra sem kemur að meðferðinni.

„Eins og staðan er í dag í samfélaginu og öll þessi umræða sem hefur átt sér stað þá er mikil þörf fyrir úrræði eins og Keep safe,“ segir María.

Meðferðin er í tíu skipti, ein og hálf klukkustund í senn og haft er samráð við foreldra piltanna.  Lögð er áhersla á að styrkja sjálfsmynd piltanna og aðstoða þá við að taka réttar ákvarðanir. Nú er boðið upp á meðferðina í annað sinn og sex piltar taka þátt. 

María segir erfitt að áætla fjölda pilta sem þyrftu meðferð sem þessa.

„Það eru mjög margir að stíga yfir mörk annarra og ég held að við ættum alveg að geta verið að keyra námskeið á hverri einustu önn, með 6, 7,8 strákum ef við komum þessu í þann farveg sem við myndum vilja sjá. “

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir