Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Dulin hómófóbía áhorfenda mögulega að villa fyrir þeim

Mynd:  / 

Dulin hómófóbía áhorfenda mögulega að villa fyrir þeim

26.10.2021 - 13:07

Höfundar

Annar þáttur Ófærðar var sýndur á sunnudagskvöldið og spennuspekingar hlaðvarpsins Með ófærð á heilanum settust niður beint eftir þátt til að kryfja þær upplýsingar sem fram komu. Ýmsar kenningar eru uppi um hver beri ábyrgð á morðinu og hvernig muni spilast úr fléttunni. Athugið að færslan og þátturinn innihalda spilliefni úr Ófærð 3.

Gestir Snærósar Sindradóttur að þessu sinni voru fjölmiðlafólkið Margrét Erla Maack og Birgir Olgeirsson. Þau voru sammála um að upplýsingar um að hinn látni, Ívar, hefði stundað kynlíf skömmu fyrir andlát sitt geti mögulega verið afvegaleiðandi fyrir áhorfendur sem sjálfkrafa geri ráð fyrir að um gagnkynja kynlíf hafi verið að ræða. Ekkert hafi komið fram í máli meinatæknisins í þættinum um það hvort kynlífið hafi verið stundað með karli eða konu og því gæti verið um afvegaleiðingu af hálfu aðstandenda þáttanna að ræða. Sú hugsanavilla geti skipt sköpum um það hver beri ábyrgð á andláti Ívars og hvernig áhorfendur lesi úr fléttu þáttanna eftir því sem fram líður. 

 

Í hlaðvarpsþættinum spunnust jafnframt líflegar umræður um það hvernig persóna Ólafs Darra Ólafssonar, lögreglumaðurinn Andri Ólafsson, hefði þróast í þremur þáttaröðum. Þó hann hafi ávallt skipað aðalhlutverk þáttanna hafi fyrstu tveir þættir þessarar þáttaraðar bætt meiri dýpt í persónuna en fyrri tvær þáttaraðir. Þannig má sjá Andra sýna á sér aðrar og töluvert breyskari hliðar en áður sem auki samúð áhorfenda með honum og geri persónu hans ófyrirsjáanlegri. 

Með Ófærð á heilanum er hlaðvarpsþáttaröð í umsjón Snærósar Sindradóttur þar sem farið er ofan í saumana á því hvað kemur fram í hverjum þætti Ófærðar og hvaða kenningar eru uppi hverju sinni. Þættina má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum en einnig í spilara RÚV, strax á eftir frumsýningu Ófærðar hvert sunnudagskvöld á RÚV. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Balti á það til að henda inn hipp og kúl tónlistarfólki