Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Breyta smitsjúkdómadeild aftur í covid-deild

26.10.2021 - 16:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákveðið hefur verið að leggja smitsjúkdómadeild Landspítalans undir covid-sjúklinga að nýju. Fjölgun smita kalli á sóttvarnir almennings. Ofan á þetta bætist óvenju mikill fjöldi annarra sýkinga, ekki síst hjá börnum.

Fjórir sjúklingar á hjarta-, lungna- og augnskurðdeild Landspítalans greindust með covid í gær, smitin eru talin hafa borist inn með gesti. Í morgun greindist fimmti sjúklingurinn til viðbótar og einn starfsmaður. „En það eru nokkrir tugir starfsmanna, að minnsta kosti 30, líklega fleiri, sem eru í sóttkví og það má alveg eins búast við því að einhver þeirra reynist vera jákvæð líka,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala og formaður farsóttanefndar spítalans. Sjúklingurinn sem smitaðist fyrstur var fluttur af Hringbraut yfir á smitsjúkdómadeildina í Fossvogi.

Ákveðið hefur verið að breyta smitsjúkdómadeildinni í Covid-deild aftur og þessir fjórir sjúklingar verða fluttir þangað til þess að ljúka sinni sjúkrahúsvist og eftir atvikum fá meðferð við covid ef að þörf er á, að sögn Más.

Már segir engan vafa á því að faraldurinn sé að sækja í sig veðrið. Hlutfall einkennasýna sé mun hærra núna en til dæmis í sumar. „Við erum að sjá líka stöðugan og jafnan vöxt í nýgengi, sjö daga nýgengi er núna 232 tilfelli sem er afar hátt og fer hækkandi.“

Börn lágu á göngum Barnaspítalans

Ofan á þetta bætast síðan árstíðabundnar pestir hjá börnum í meira mæli en áður og segir Már að í raun sé verið að borga fyrir fá tilfelli öndunarfærasjúkdóma hjá börnum síðasta vetur og hópurinn sem er næmur sé því stærri núna en venjulega. „Í morgun bar svo við að það lágu börn á göngunum á Barnaspítala Hringsins sem er óvanalegt og kannski einsdæmi.“

Már segir ástandið og fjölgun smita brýningu til fólks. „Þetta er það sem kallar á það að við höldum áfram að gæta að einstaklingsbundnum vörnum, grímunotkun í almannarýmum og ástunda ríkulegan handþvott og gæta vel að okkur vegna þess að innviðir heilbrigðiskerfisins standa höllum fæti gagnvart svona miklum áföllum.“