Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Yfirgefin börn fundust þegar tilkynnt var um lík

25.10.2021 - 04:45
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Þrjú yfirgefin börn og mannabein fundust í íbúðarhúsi í borginni Houston í Bandaríkjunum í gær. Ed Gonzalez, lögreglustjóri í Harris-sýslu, segir börnin vera á aldrinum 15, tíu og sjö ára. NBC fréttastofan hefur eftir honum að líkamsleifarnar sem fundust séu mögulega af fjórða barninu.

Lögreglumenn fundu börnin inni á heimilinu þegar þeir sinntu útkalli vegna velferðarmála. 15 ára barnið hringdi í yfirvöld til þess að láta vita að níu ára bróðir hans hafi legið dáinn í næsta herbergi í rúmlega ár. KPRC fréttastofan í Houston hefur eftir yfirvöldum að 15 ára barnið hafi tjáð þeim að foreldrar þeirra hafi ekki búið í íbúðinni í marga mánuði. Lögreglustjórinn Gonzalez vill komast að því hverjir foreldrar barnanna eru, eða hvort þau eigi einhverja nákomna ættingja sem þau geta leitað til. Hann kvaðst á samfélagsmiðlum vera algjörlega miður sín vegna þessa máls.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV