Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja að Allir vinna verði fest í sessi til framtíðar

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Samiðn, samband iðnfélaga, hvetur stjórnvöld til að tryggja að átakið Allir vinna verði fest varanlega í sessi. Ályktað var um málið á miðstjórnarfundi sambandsins. Átakið er meðal þeirra ráðstafana sem stjórnvöld gripu til í mars fyrra þegar Covid-faraldurinn fór að breiðast út og harða tók í ári. Að óbreyttu lýkur átakinu um áramót.

Í átakinu Allir vinna felst að virðisaukaskattur vegna framkvæmda og endurbóta við íbúðarhúsnæði er endurgreiddur að öllu leyti. Áður var endurgreiðslan 60 prósent. Heimild til endurgreiðslu var einnig útvíkkuð og hefur síðan í mars í fyrra einnig náð til vinnu við frístundahúsnæði, mannvirki í eigu félagasamtaka og bílaviðgerða. 

Í ályktun Samiðnar segir að aðgerðirnar hafi heppnast vel. Endurgreiðslur fyrstu átta mánuði ársins nemi um 5,9 milljörðum króna. Þá segir þar að átakið stuðli að mörgum virðisaukandi verkefnum til samfélagsins og skipti enn fremur miklu máli út frá neytendasjónarmiðum. Samiðn hvetur því stjórnvöld að festa umrædd átak í sessi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir