Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Verk Picasso seldust fyrir milljarða

Artworks by Pablo Picasso are displayed for auction at the Bellagio hotel and casino Saturday, Oct. 23, 2021, in Las Vegas. Sotheby's and the MGM Resorts Fine Art Collection hosted the auction, which raised $109 million from eleven pieces. (AP Photo/Ellen Schmidt)
 Mynd: AP

Verk Picasso seldust fyrir milljarða

25.10.2021 - 04:32

Höfundar

Ellefu verk spænska listamannsins Pablo Picasso seldust á uppboði í Bandaríkjunum um helgina fyrir samanlagt 110 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 14 milljarða króna.

Verkin voru í eigu MGM Resorts, og voru til sýnis á veitingastaðnum Picasso á Bellagio hótelinu í Las Vegas. Uppboðið var haldið sléttum 140 árum eftir fæðingu listamannsins. Uppboðshúsið Sotheby's hélt utan um það fyrir MGM. 

Helsta aðdráttarafl uppboðsins var Kona með rauð-appelsínugulan hatt, verk frá árinu 1938 af Marie-Therese Walter, elskhuga og innblástursgyðju Picassos. Verkið seldist á rúmlega 40 milljónir dala, nærri tvöfalt meira en Sotheby's bjóst við að sögn CNN. 

Auk merkilegra málverka var einnig hægt að bjóða í karöflu sem listamaðurinn bjó til árið 1954. Karaflan var metin á um 60 til 80 þúsund dali, en var seld fyrir 315 þúsund.

Picasso var fæddur árið 1881 og lifði til ársins 1973. Eftir hann liggur fjöldi verka, þar af margra í anda kúbisma, sem hann er hvað þekktastur fyrir. Kona með rauð-appelsínugulan hatt er undir áhrifum kúbisma, og auk hennar seldust tvö önnur verk sem voru máluð undir svipuðum áhrifum. 

MGM sagði í ágúst þegar uppboðið var auglýst að það yrði nýtt til þess að auka á fjölbreytileika listaverkasafns þess. Hluti ágóða uppboðsins verður nýttur á listaverkamarkaðnum. Enn eru tólf Picasso-verk í eigu MGM, og verða þau nú til sýnis á veitingastaðnum í stað þeirra sem voru seld um helgina.