Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skoða þurfi bólusetningar barna með opnum huga

Sóttvarnalæknir segir að skoða þurfi bólusetningar ungra barna við kórónuveirusmiti með opnum huga. Sextugum og eldri verður nú boðin þriðja sprautan og til skoðunar er að bjóða hana yngra fólki.

Undanfarna viku hafa 470 kórónuveirusmit greinst innanlands. Nú eru 757 virk smit í landinu, þar af hátt í 200 hjá börnum tólf ára og yngri og 46 hjá fimm ára og yngri. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna og Sóttvarnastofnun Evrópu meta nú hvort bólusetja eigi börn niður í fimm ára aldur.  

„Við bíðum átekta, sjáum hvaða niðurstaða kemur frá þeim,“ segir Þórólfur. 

Fyndist þér það koma til greina, komist þau að þeirri niðurstöðu að börnin megi fá bóluefnið? „Við þurfum að skoða það með opnum huga og sjá niðurstöðurnar sem þeir koma með, bæði varðandi öryggi og verkun bóluefnisins, þannig að við sjáum bara til.“

Nú þegar hafa afmörkuðum hópum boðist að fá þriðju sprautuna, svokallaðan örvunarskammt og í dag var tilkynnt um að heilsugæslan myndi annast innköllun fólks sem er 60 ára og eldri.

„Við höfum núna verið að leggja áherslu á eldri einstaklinga, fólk sem er 60 ára og eldra. Og sömuleiðis heilbrigðisstarfsmenn. Framlínustarfsmenn þar og fólk með undirliggjandi vandamál.“

Mun almenningi standa örvunarskammtur til boða?  „Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það, það gæti alveg eins verið en hvenær það verður er ekki gott að segja á þessari stundu. Það þurfa að líða að minnsta kosti sex mánuðir hjá flestum á milli annars og þriðja skammts til að ná sem bestri verkun. Þannig að það kemur í ljós á næstu vikum og mánuðum. Ef við höldum áfram að sjá mikið af smitum hjá bólusettum, þá held ég að það gæti verið góð leið að gera það. “