Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skæð COVID bylgja í Austur-Evrópu

25.10.2021 - 19:17
Yfirstandandi bylgja COVID-19 faraldursins stefnir í að vera sú skæðasta víða í Austur-Evrópu. Ráðstafanir eru ýmiss konar, frá því að fresta læknismeðferðum sem mega bíða yfir í að skipa fólki yfir sextugu að halda sig heima í fjóra mánuði.

Í Lettlandi eru dagleg smit þessa dagana fleiri en í fyrri bylgjum faraldursins, og fóru yfir þrjú þúsund í fyrsta sinn fyrir helgi. Ferðabanni hefur verið komið á til fimmtánda nóvember og öllum verslunum, sem ekki selja nauðsynjar, verður lokað þangað til. 

Íbúar í höfuðborginni Ríga finna fyrir þreytu vegna ástandsins. „Það verður erfiðast að halda sig heim, held ég. Ég er íþróttamaður og vil fara á æfinga. Ég varð strax síðasta vetur leiður á því að æfa mig utandyra,“ sagði Renars, íbúi í Ríga.

Læknismeðferð frestað í Eistlandi

Í nágrannaríkinu Eistlandi hafa smittölur verið á hraðri uppleið, þó að þar sé bylgjan ekki orðin jafn slæm og sú fyrri. Dagleg tilfelli hafa verið á annað þúsund. COVID-sjúklingum hefur fjölgað til muna á sjúkrahúsum og því verður þeim læknismeðferðum, sem mögulega geta beðið, frestað. 

„Ef við þyrftum eingöngu að fást við tilfelli frá bólusettu fólki væri vinnuálagið eðlilegt, og við gætum hjúkrað sjúklingunum með hefðbundu vinnulagi okkar,“ segir Joel Starkopf, stjórnarmaður í háskólasjúkrahúsinu í Tartu.

Sjúkrahús í Rúmeníu yfirfull

Ástandið í Rúmeníu hefur hraðversnað og hafa mest tæplega 19 þúsund greinst þar á einum degi. Nú er grímuskylda bæði innan og utandyra og óbólusett fólk er í útgöngubanni á næturnar. Álagið á sjúkrahúsum er farið að segja til sín.

„Það er mjög erfitt að finna rúm á sjúkrahúsinu. Innlögnum hefur fjölgað mikið - þær eru um það bil tvöfalt fleiri á hverjum degi en útskriftirnar,“ segir Ramona Nedelcu læknir.

Sextugir og eldri í Moskvu heima í 4 mánuði

Þá er staðan í Rússlandi ekki að skána og þar stefnir enn í verstu bylgjuna hingað til. Ný tilfelli eru um 35 þúsund á dag. Nýjar ráðstafanir tóku gildi í Moskvu í dag - fólk yfir sextugt á að halda sig heima næstu fjóra mánuðina, hert er á bólusetningarskyldu og fleiri þurfa að vinna heima. Og þarna hefur það líka áhrif að aðeins 35% íbúa hafa verið bólusett.

„Ég er ekki bólusett,“ segir ung ónafngreind kona sem liggur á sjúkrahúsi með COVID. „Ég kenni sjálfri mér um þetta. Ég er búinn að vera á súrefni í viku og virðist ekki ná að jafna mig.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV