Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Nærri tvöfalt fleiri í farsóttarhúsum en í síðustu viku

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfir hundrað gestir eru nú á farsóttarhúsum Rauðakrossins í Reykjavík og bættust við 40 gestir bara nú um helgina. Aðeins tveir gestir eru á farsóttarhúsi á Akureyri. Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa, segir þau búa sig undir fjölgun gesta samhliða afléttingum sóttvarnaraðgerða stjórnvalda. Hann segir óvíst hversu lengi farsóttarhúsin verði starfrækt hér á landi.

„Tæpt um helgina - en vonum þetta sleppi“

„Staðan hjá okkur hefur verið svolítið þung undanfarna daga. Það hafa verið hjá okkur yfir hundrað gestir núna undanfarið. Þar af eru 76 í einangrun“ segir Gylfi.

„Við eigum líka von á fólki frá Afganistan í vikunni. Það verða á bilinu 20 til 30 manns. Það er fólk sem þarf að vera hjá okkur í skimunarsóttkví þessa fimm daga sem að það þarf“ segir Gylfi.

Nú eru opin þrjú farsóttarhús á landinu, tvö í Reykjavík og eitt á Akureyri. Gylfi segir þau ekki sjá fram á að opna fleiri hús, en gætu þurft að fjölga starfsfólki. „Við vonum nú að þetta sleppi, þetta var nú kannski svolítið tæpt núna yfir helgina, þá áttum við ekki nema einhver fimmtán herbergi eftir. En það slapp og sem betur fer var nú, er nú um tíu manns að útskrifast hjá okkur í dag.“

Spurður hvort gestir hússins væru aðallega íslendingar eða erlendir ferðamenn, segir Gylfi það sé nokkuð blandaður hópur. Hann segir þó minna af erlendum ferðamönnum nú en oft áður í faraldrinum.

Fjölgar þegar takmörkunum er aflétt

„Reynslan hefur náttúrulega sýnt það að þegar er aflétt, þá eykst hjá okkur. Þannig við verðum að vera undir það búin“ segir Gylfi. „En við náttúrulega vonum það besta og vonum að það gerist ekki“.

Óvíst hve langlíf farsóttarhúsin verða

Gylfi segir það óljóst hversu lengi þau muni starfrækja farsóttarhúsin í þeirri mynd sem þau eru nú. Það gæti meðal annars farið eftir þróun faraldursins erlendis og hvernig bólusetningum miðar á heimsvísu.

Það muni líklega þurfa einhverskonar úrræði fyrir smitaða einstaklinga, en erfitt sé að spá hvernig það verði.

„Hvort að Heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar ákveða að reka svona húsnæði áfram, það er náttúrulega bara undir þeim komið. Við erum með samning út janúar. Svo bara sjáum við hvað gerist“ segir Gylfi.