Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Grindavík fyrst til að vinna Njarðvík

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Grindavík fyrst til að vinna Njarðvík

25.10.2021 - 21:27
Grindavík varð í kvöld fyrst liða til að vinna Njarðvík á tímabilinu í úrvalsdeild karla í körfubolta en liðin mættust í háspennuleik í Grindavík. Með sigrinum komst Grindavík á topp deildarinnar.

 

Njarðvíkingar höfðu unnið fyrstu þrjá leiki sína í deildinni en Grindavík unnið tvo af þremur. Njarðvík byrjaði betur og komst í 19-10 í fyrsta leikhluta en Grindvíkingar söxuðu heldur betur á forskotið og Njarðvík var einu stigi yfir eftir leikhlutann, 22-21. Bæði lið skoruðu 22 stig í öðrum leikhluta svo enn munaði einu stigi í hálfleik, 44-43 fyrir Njarðvík.

Liðin skiptust á að hafa forystu sem varð þó aldrei meiri en 9 stig. Grindvíkingar unnu þriðja leikhluta 24-21 og voru tveimur stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 67-65. Leikurinn var í járnum fram á lokasekúndur og staðan jöfn 81-81 þegar 23 sekúndur voru eftir en Grindvíkingar kláruðu leikinn af vítalínunni og unnu 87-82.

Ólafur Ólafsson var stigahæstur Grindvíkinga með 25 stig og Ivan Aurrecoechea Alcolado var með 24 stig og 17 fráköst. Nicolas Richotti skoraði mest fyrir Njarðvík, 18 stig.

Sigurinn lyfti Grindavík upp í toppsætið með 6 stig þar sem fyrir eru með sama stigafjölda, Njarðvík, Keflavík og Tindastóll. Þetta var fyrsti leikur fjórðu umferðar en hann var færður fram vegna komandi verkefna Benedikts Guðmundssonar þjálfara Njarðvíkur með kvennalandsliði Íslands á næstunni en umferðin heldur áfram á fimmtudag.