Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Ekki tekið blóðsýni nema rannsókn sé hafin“

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Það er ekki tekið blóðsýni, þegar grunur er um byrlun nema rannsókn sé hafin segir Hrönn Stefánsdóttir verkefnastjóri neyðarmótttöku kynferðisbrota. Hún segir þurfa samfélagslegt átak til þess að uppræta þessi brot og þurfi að beina sjónum að gerendum.

„Þetta er dálítið vandmeðfarið af því að einkennin geta verið svipuð og áfengis áhrif. Þannig að við getum ekki sagt á bráðamótttökunni - þér var byrlað. Við getum ekki tekið þessar blóðprufur nema hafin sé einhver rannsókn á máli“ segir Hrönn.

Þessi einkenni - eru þau augljós?

„Það sem brotaþolar lýsa, þegar við tökum á móti brotaþolum sem telja sér hafa verið byrlað, þá lýsa þeir þessum miklu áhrifum sem gerast bara á nokkrum mínútum. Þar sem þau missa stjórn á bæði tíma og rúmi. Og jafnvel máttleysi í fótum“ segir Hrönn.

Er tekið að nægjanlegri alvöru á þessum málum?

„Bráðamóttakan er fyrst og fremst að hugsa um heilsu þeirra sem þangað leita, þannig að við hlúum að fólki. Hvort sem það er að einstaklingar komi og verði hjá okkur í eftirliti, fái jafnvel vökva og teknar einhverjar blóðprufur með tilliti til áfengismagns“ segir Hrönn.

„Það er rannsóknarstofa Háskólans sem að rannsakar hvort það séu lyf eða önnur vímuefni í blóði eða þvagi. En það er ekki gert nema sé hafin einhver rannsókn“ segir Hrönn. Hún segir það sé langur vegur framundan í málaflokknum.

„Neyðarmóttakan er þannig að ef að brotaþoli kemur til okkar og lýsir þessum áhrifum og jafnvel einhverjum meintu kynferðisbroti að þá er alltaf tekið blóð og þvag“ segir Hrönn.

Hægt er að horfa á viðtalið við Hrönn í heild sinni í kvöldfréttum sjónvarps.