Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Dæmd fyrir að horfa upp á fimm ára barn deyja úr þorsta

25.10.2021 - 10:47
Defendant Jennifer W. arrives in a courtroom for her trial in Munich, Germany, Monday, Oct. 25, 2021. The woman from Lohne in Lower Saxony is charged with murder and war crimes. As an IS supporter in Iraq, she is said to have stood idly by while a small Yazidi girl was chained in a courtyard and died of thirst. (Sven Hoppe/dpa via AP)
 Mynd: AP
Þrítug þýsk kona, fyrrum liðsmaður hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins, var í Frankfurt í morgun dæmd í tíu ára fangelsi fyrir aðild sína að morði á fimm ára Yazidi-stúlku árið 2015. Stúlkan var ásamt móður sinni ambátt á heimili konunnar og eiginmanns hennar í Írak.

Konan, sem heitir Jennifer Wenisch var dæmd fyrir aðild að stríðsglæp. Hún hefði horft upp á og ekki brugðist við því þegar eiginmaður hennar skildi barnið eftir úti hlekkjað í steikjandi hita þannig að það lést úr þorsta. Gert er ráð fyrir að dómur verði kveðinn upp yfir eiginmanni hennar í næsta mánuði, segir í frétt BBC. 

Þetta er einn af fyrstu dómunum sem fellur um glæpi Íslamska ríkisins gegn Yazidi-fólkinu, sem telst til Kúrda í norður Írak. Fólkið fékk sérstaklega að kenna á grimmd hryðjuverkamannanna. 

Wenisch neitar sök. Lögmenn hennar segja að móðir barnsins sé óáreiðanlegt vitni og að engin sönnunargögn liggi fyrir um að stúlkan hafi dáið í raun. Liðsmenn íslamska ríkisins hnepptu mæðgurnar í þrældóm þegar samtökin lögðu undir sig yfirráðasvæði Yazidi í norðanverðu Írak árið 2014. Þúsundir kvenna og stúlkna hlutu sömu örlög. 

Alþjóðleg lögsaga í stríðsglæpamálum

Réttað var yfir Wenisch í Þýskalandi á grundvelli þess að alþjóðleg lögsaga er um stríðsglæpi, þar með talin þjóðarmorð, framin í öðru landi. Wenisch var handtekin í Tyrklandi árið 2016 og framseld til Þýskalands, segir í frétt AFP.  

BBC segir að Wenisch sé grunuð um að hafa starfað í hópi innan hryðjuverkasamtakanna sem framfylgdi því að fólk fylgdi þeirra túlkun á íslam í Mosul og Fallujah. Deutsche Welle hefur eftir saksóknurum að hennar hlutverk hafi verið að leita að konum sem ekki fylgdu reglunum um hegðun og klæðaburð vopnuð hríðskotariffli og sprengjuvesti. 

Jennifer Wenisch hlaut dóm fyrir bæði þrælahaldið og að hafa átt þátt í því með aðgerðaleysi sínu að stúlkan lést. Deutsche Welle greinir frá því að mæðgurnar hefðu verið ambáttir á heimili Wenisch og íraksks eiginmanns hennar á heimili þeirra í Mosul. 

„Þegar stúlkan veiktist og vætti dýnu sína, tók eiginmaður ákærðu hana og hlekkjaði fyrir utan í refsingarskyni og lét barnið deyja úr þorsta á kvalafullan hátt í steikjandi hita,“ sagði saksóknari í réttarhöldunum. „Hin ákærða horfði upp á eiginmann sinn gera þetta og gerði ekkert til að koma stúlkunni til bjargar.“

Ólst upp í mótmælendatrú

Jennifer Wenisch ólst upp í Lohne í Neðra-Saxlandi í kristinni fjölskyldu en snerist til íslamstrúar árið 2013. Ári síðar hélt hún til Írak í gegnum Tyrkland og Sýrland til að ganga til liðs við Íslamska ríkið.  

Hún var handtekin þegar hún reyndi að endurnýja þýskt vegabréf sitt í Ankara höfuðborg Tyrklands árið 2016. 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV