Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Börn og bólusettir fari í styttri sóttkví og einangrun

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Lengd sóttkvíar og einangrunar hjá börnum og bólusettum vegna COVID-19 verður stytt, nái tillögur sóttvarnalæknis fram að ganga. Fleiri kórónuveirusmit greindust um helgina en undanfarnar helgar. Sóttvarnalæknir segir ekki tímabært að endurskoða dagsetningu afléttinga takmarkana.

Undanfarna viku hafa greinst 470 innanlandssmit og um helgina voru þau 214, sem eru fleiri smit en greinst hafa undanfarnar helgar. Stefnt er að afléttingu allra takmarkana 18. nóvember, eftir rúmar þrjár vikur. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ekki sé tímabært að endurskoða þá dagsetningu.

Ég held að við verðum bara að sjá hvað gerist og einkum hvað gerist á spítalanum. Við erum áfram að sjá innlagnir á spítalann, það voru þrjár innlagnir núna um helgina og einn á gjörgæsludeild,“ segir Þórólfur.

Undanfarnar vikur hafa um tíu smit greinst á landamærunum á dag, en í fyrradag voru þau sautján. 

„Sem er óvenjulega mikið,“ segir Þórólfur. „En þetta er fólk með íslenska kennitölu þannig að það er greinilegt að fólk er að koma hingað heim með veiruna með sér.“

En helst þetta ekki í hendur við fjölgun fólks á ferðinni? „Jújú, það gerir það og veiran er í uppsveiflu erlendis í mörgum löndum.“

Þórólfur leggur nú lokahönd á tillögur til heilbrigðisráðherra um að stytta þann tíma sem fólk þarf að vera í einangrun og sóttkví.  „Það þarf að breyta reglugerð í framhaldi af því til þess að það taki gildi og þetta mun verða núna á næstunni, býst ég við,“ segir Þórólfur.

Hverjar verða breytingarnar? „Breytingarnar verða þær helstar að við munum reyna að stytta einangrun og stytta sóttkví hjá ákveðnum aðilum; börnum og bólusettum.“

Hversu löng verður þá einangrunin og sóttkvíin? „Það fer eftir því hvort fólk er með einkenni eða ekki einkenni varðandi einangrunina. einangrun getur þá farið niður í sjö daga og sóttkvíin getur farið niður í fimm daga hjá fólki sem er bólusett og hjá börnum.“