Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vilja herða reglur að nýju á Englandi

epa09536188 A Covid-19 PCR test centre in London, Britain, 21 October, 2021. The UK government is under pressure to implement its Covid Plan B as figures have shown that England is recording some fifty thousand Covid-19 cases daily, the highest number since mid-July.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þingmenn Verkamannaflokksins knýja á bresku ríkisstjórnina að grípa til varaáætlunar í glímunni við útbreiðslu kórónuveirunnar á Englandi. Hún innifelur meðal annars hvöt til fólks að vinna heima og að gripið verði til grímuskyldu.

Um það bil 50 þúsund ný tilfelli COVID-19 greinast nú daglega á Englandi sem er það mesta síðan í júlímánuði síðastliðnum. Rachel Reeves, skuggaráðherra fjármála, segir jafnframt að hægst hafi á bólusetningu, í samtali við breska ríkisútvarpið. Þar þurfi að slá í klárinn.

Rishi Sunak fjármálaráðherra fullyrðir þó að engin gögn bendi til þess að kominn sé tími á beitingu varaáætlunar. Henni er ætlað að draga úr álagi á heilbrigðiskerfi og þar er einnig gert ráð fyrir því að almenningi verði gert að bera og framvísa kórónuveiruvegabréfum.

Samkvæmt aðalkórónuveiruáætlun þeirri sem nú gildir er fyrirhugað að gefa berskjölduðum hópum örvunarskammt, bólusetja tólf til fimmtán ára ungmenni og að hvetja þau sem ekki hafa þegið bólusetningu til að gera það.

Heilbrigðisyfirvöld og læknar vilja að gripið verði til takmarkana á Englandi að nýju í ljósi fjölgunar smita. 

Í skuggaráðuneytum er fylgst með ráðuneytum sitjandi ríkisstjórnar að því er fram kemur á Vísindavef Háskóla Íslands.

Stjórnarandstaðan velur ráðherraefni úr sínum röðum til þess að fylgjast með tilteknum ráðuneytum og kallast þau skuggaráðuneyti og ráðherraefnin skuggaráðherrar.