Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Strandveiðibátar lönduðu á 51 stað í sumar

Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Þorskafli smábáta á strandveiðum hefur aukist um 40 prósent undanfarin fimm ár, en tæplega 700 bátar voru við strandveiðar í sumar. Það er krafa smábátasjómanna að geta stundað strandveiðar í fjóra mánuði ár hvert, án þess að hægt sé að stöðva veiðar eins og gert hefur verið tvö undanfarin sumur.

Frá því strandveiðikerfinu var komið á vorið 2009 hefur það orðið sífellt stærri þáttur í útgerð smábáta og fiskvinnslu víða um land. Í sumar lönduðu standveiðibátar á 51 einum stað hringinn í kringum landið.

„Árið í ár er það besta sem við höfum upplifað“

Aflaheimildir í strandveiðikerfinu hafa aukist mikið og frá árinu 2016 hefur þorskafli á strandveiðum aukist um 40%. „Árið í ár er það besta sem við höfum upplifað,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. „Bæði hvað verð snertir og svo fór aflinn yfir 11.000 tonn í þorski og heildaraflinn yfir 12.000 tonn.“

„Ég heyri mikinn áhuga“

Fjöldi báta hefur verið breytilegur frá upphafi en í sumar voru 672 bátar á strandveiðum og Örn segir að þessi fjöldi muni halda sér og vel það. „Ég heyri mikinn áhuga, eins og á síðasta ári. Og þetta ár náttúrulega þegar þetta hefur gengið vel þá vex áhuginn og fjölgar bátunum.“

Veiðarnar stöðvaðar síðustu tvö sumur

Strandveiðar eru stundaðar tímabundið og það má veiða frá byrjun maí til ágústloka í fjörutíu og átta daga samtals. Það hefur ekki alltaf gengið eftir því aflaheimildir hafa ekki alltaf dugað út tímabilið. „Núna síðastliðin tvö ár hafa veiðarnar verið stöðvaðar. Annarsvegar 19. ágúst og 18. ágúst núna í ár,“ segir Örn og koma verði í veg fyrir að þetta geti gerst.

En veigamesta breytingin sem eigi eftir að gera

Því þurfi að festa í lög að strandveiðar séu í 48 daga, veiðileyfin gildi út ágúst og ekkert þak verði á hve mikið megi veiða á þessum tíma. Þetta var ein af kröfum á nýafstöðnum aðalfundi Landssambands smábátaeigenda og Örn segir að þetta sé ef til vill eina veigamikla breytingin sem eigi eftir að gera á þessu tólf ára gamla kerfi. „Við viljum náttúrulega alltaf gera aðeins endurbætur á því. En við teljum að ef það verður sett í lög að veiðileyfi gildi í 48 daga þá eru menn mjög sáttir við það.“