Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skot hljóp tvisvar úr leikmunabyssu í síðustu viku

24.10.2021 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: News Nation/Shutterstock - RÚV
Tvö skot hlupu úr leikmunabyssu á tökustað kvikmyndarinnar Rust þann 16. október. Byssan átti ekki að vera hlaðin. Tæpri viku síðar varð leikarinn Alec Baldwin tökustjóra að bana þegar skot hljóp úr byssu, sem einnig átti að vera óhlaðin.

Þá hefur aðstoðarleikstjóri Rust, Dave Halls, áður verið sakaður um að gæta ekki að öryggi á tökustað kvikmyndaverkefna. 

Halls afhenti leikaranum Alec Baldwin leikmunabyssu á tökustað Rust á fimmtudag og fullvissaði hann um að hún væri óhlaðin. Skot hljóp úr byssunni, sem varð tökustjóranum Halynu Hutchins að bana og særði leikstjórann Joel Souza. CNN greinir frá því að árið 2019 hafi starfsfólk tveggja kvikmyndaverkefna kvartað undan framkomu Halls og fyrir að fara á svig við öryggisreglur, meðal annars við meðhöndlun skotvopna á tökustað.  

LA Times hefur eftir heimildarmönnum að í síðustu viku hafi í tvígang hlaupið skot úr byssu áhættuleikara Baldwins við tökur á Rust, þegar vopnið átti að vera óhlaðið. Þá urðu engin slys á fólki.