Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir ASÍ hafa beðið starfsfólk Play um hryllingssögur

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, vísar allri gagnrýni Alþýðusambands Íslands um kjör starfsfólks félagsins á bug. Hann segir ASÍ hafi að fyrra bragði sent starfsmönnum Play tölvupósta þar sem óskað var eftir „hryllingssögum“. ASÍ hefur gagnrýnt launakjör starfsfólks auk þess að Play hafi ekki samið við Flugfreyjufélag Íslands, heldur séu allir starfsmenn í Íslenska flugstéttarfélaginu sem sambandið skilgreini sem „gult stéttarfélag“.

Ekkert athugavert við stéttarfélagið

„Við erum að semja við stéttarfélag sem er búið að vera til síðan 2014 og á þeim tíma voru til dæmis allir flugmenn Wow hjá þessu stéttarfélagi. Sem var síðan stækkað út til þess að taka við öðrum starfsmönnum, meðal annars flugfreyjum eða flugliðum eins og við köllum þá,“ segir Birgir.

„Þetta hefur ASÍ verði að gagnrýna með gríðarlega hörðum hætti,“ segir Birgir og vísar í þegar kallað var eftir að sniðganga félagið.

Segir skorta öll efnisleg rök

„Það hefur aldrei komið fram almennilega frá ASÍ um hvað málið snýst, eða nákvæmlega hver efnislegu rökin eru,“ segir Birgir. Hann segir gagnrýnina upphaflega hafa snúið að því að þau greiddu „þrælakjör“ sem þau hafi leiðrétt.

„Þá var allt í einu orðið gult stéttarfélag. Það hefur ekkert heyrst um það meira enda er það alveg órökstutt líka“ segir Birgir. Hann segir það ólíðandi að fyrirtæki sem sé að hefja rekstur og skapa störf þurfi að sitja undir slíkri gagnrýni.

Segir það sig ekki sjálft að ef allir ykkar starfsmenn eru í sama stéttarfélagi, en ekki fagfélögunum sem við þekkjum, er félagið þá nokkuð óháð ykkur sem borgið þeim laun? Liggur það ekki í hlutarins eðli?

„Nei það gerir það ekki,“ segir Birgir og bendir á að Flugfreyjufélag Íslands hafi að auki aðeins einn viðsemjenda, sem sé Icelandair. „Þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulagið.“

Viðtalið við Birgi má sjá í heild sinni í Silfrinu hér á vef RÚV.is.