Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Noregur: Þriggja leitað í straumþungri á

24.10.2021 - 21:33
Mynd með færslu
 Mynd: SIGBJØRN LINGA/HORDALAND FOLKEB
Viðamikil leit að konu og tveimur körlum stendur nú yfir í Hörðalandsfylki í Vestur-Noregi en þau voru í árabáti sem saknað er við Langvotnevatn og Tokagjelsá í Kvam. Einnig var hundur með þeim um borð.

Að því er fram kemur á vef norska ríkisútvarpsins er talið að ætlun fólksins hafi verið að róa yfir vatnið en að sögn vitna greip straumurinn bátinn og færði hann í átt að stíflu í ánni.

Vitnið hljóp meðfram ánni og fylgdist með för bátsins eins lengi og það gat. Óttast er að fólkið hafi fallið útbyrðis en mikið rennsli er í ánni og háir fossar.

Atvikið gerðist klukkan níu í kvöld að staðartíma en vont veður er á staðnum og því ekki hægt að nota þyrlu við leitina. Lögregla á svæðinu stjórnar aðgerðum en klifurhópar, kafarar, Rauði krossinn, lögregla, sjúkra- og slökkvilið aðstoða við leitina. Leitað verður í alla nótt hefur norska ríkisútvarpið eftir viðbragðsaðilum.
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV