Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kvikasilfursmengun á Norðurslóðum að aukast

Mynd með færslu
 Mynd: dr. Freydís Vigfúsdóttir
Fuglar sem eru á svæði suður af Grænlandi eru mengaðir af mun meira kvikasilfri en annars staðar í Norður-Atlantshafi. Þetta hefur  komið fram  í rannsóknum á sjófuglum. Kvikasilfurmengun á Norðurslóðum er að aukast. 

Aukin kvikasilfursmengun á Norðurslóðum veldur vísindamönnum áhyggjum.
Erpur Snær Hansen líffræðingur er einn þeirra sem tekið hefur þátt í rannsóknum á ferðum sjófugla og hefur kvikasilfursmæling í fuglinum komið í kjölfar þeirrar rannsóknar.
Fjaðrasýni hafa meðal annars verið tekin úr sjófuglunum til að mæla kvikasilfursmagn í Norður-Atlantshafi.

„Þá kemur einmitt í ljós að það er stór blettur suður af Grænlandi. Fuglar sem eru þar á veturna eru með miklu meira kvikasilfur í sér en fuglar sem eru annars staðar til dæmis."  „Og eru einhverjar skýringar á því?" Já það eru nú haffræðilegar skýringar á þessu sko. Mikið af þessu er  bæði blanda af náttúrulegu og líka iðnaðarmengun sem endar svo í norðurhöfum og festist í ís. Ísinn bráðnar svo  á vorin og  þá fylgir hann straumum sem liggja þarna meðfram Grænlandi og þetta er  þyngra sem veldur því að það verður útbreiðslumynstur í þessu sullum malli og fleiri þungmálmum reyndar."
 

Þetta hefur komið á daginn í kjölfar rannsókna á ferðum sjófugla sem sjötíu og níu vísindamenn frá mörgum löndum hafa tekið þátt í.  Dagleg staðsetning er skráð. Í byrjun október var hluti svæðis sjófuglanna settur undir verndarákvæði samkvæmt OSPAR sáttmálanum um verndun lífríkis sjávar  í Norðaustur-Atlantshafi.

„Þetta eykst í gegnum fæðukeðjuna eftir því sem ofar þú ert því meira verður þú fyrir þessu og við erum til dæmis mjög ofarlega í fæðukeðjunni og menn vilja fylgjast með svona löguðu því þetta hefur áhrif á fiska líka sem við erum að reyna að selja erlendis."

 

 

Ólöf Rún Skúladóttir