Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kvennafrídagurinn – Konur vinna launalaust eftir 15:10

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hinn árlegi kvennafrídagur er í dag en hann fór fyrst fram 24. október 1975. Yfirskrift dagsins að þessu sinni er: „Leiðréttum skakkt verðmætamat“. Konur hafa sex sinnum lagt niður störf á kvennafrídeginum til þess að mótmæla kynbundnu misrétti, fyrst 1975, svo 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018. Þá hafa konur gengið út af vinnustöðum, á þeim tíma sem reiknað er að konur hafi unnið fyrir launum sínum, miðað við meðalatvinnutekjur karla.


Frá Kvennafrídegi í Reykjavík 1975.

Boðið í feminíska sögugöngu í Reykjavík

Þá hefur oft á þessum degi verið boðað til samstöðufunda víða um land, en vegna heimsfaraldurs COVID-19 var boðað til rafrænna baráttufunda á netinu. Engin mótmæli eru boðuð í dag, en Kvenréttindafélag Íslands býður upp á femíníska sögugöngu um miðbæ Reykjavíkur klukkan 14.

Konur með 22,8% lægri tekjur að meðaltali

Á vefsíðu Kvennafrídagsins segir að samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna séu meðalatvinnutekjur kvenna 77,2% af meðalatvinnutekjum karla.

Konur eru því með 22,8% lægri atvinnutekjur að meðaltali miðað við útreikning Hagstofunnar. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 6 klukkustundir og 10 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17.
Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 15:10.


Frá Kvennafrídegi á Akureyri 2016

Kerfisbundið ójafnrétti felist í fleiru en launamun

„Ástæða þess að við lítum til kynbundins mun á atvinnutekjum í stað óútskýrðs launamun kynjanna er í stuttu máli sá að kerfisbundið ójafnrétti felst ekki bara í óútskýrða launamuninum heldur líka mun fleiri þáttum eins og hlutfall í stjórnunarstöðum, vinnutími, menntun, starfi, atvinnugrein og barneignum svo eitthvað sé nefnt“ segir á vefsíðu kvennafrídagsins.

„Þótt þessir þættir útskýri hluta af launamuninum þá réttlæta þeir hann ekki heldur vekja upp fleiri spurningar hvers vegna má vera að hlutur kynjanna sé svo ójafn í þessum þáttum.“