Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Enn óútséð með þingsetningu

Alþingishúsið frá Austurvelli haust
 Mynd: RÚV
Ekki er enn farið að sjá til lands í vinnu undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa. Kærufrestur rennur út á föstudaginn og ljóst að þing verður ekki kallað saman fyrir þann tíma.

Undirbúningsnefndin kom fyrst saman 11. október og síðan þá hefur upplýsingaöflun staðið yfir. Helsta verkefni nefndarinnar er að meta hvort og þá hversu miklir ágallar hafi verið á framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi og hvort þeir hafi verið líklegir til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna. Nefndarmenn sem ræddu málið í Silfrinu í morgun segja að nefndin sé enn að viða að sér upplýsingum. „Við erum að raða upp atburðum og atvikum til þess að átta okkur á hvað fór þarna fram þannig að hið eiginlega mat geti hafist hjá nefndinni,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir.

Píratinn Björn Leví Gunnarsson sagði ótímabært að meta hversu miklir annmarkar þurfi að vera á framkvæmdinni svo að uppkosning fari fram. Í raun séu lögin frekar óskýr með það. Hins vegar hafi ekki komið fram staðfesting sem bendi til þess að átt hafi verið við atkvæði. „Við erum ekki komin með staðfestingu um neitt svoleiðis þannig að ég get ekki sagt af eða á um það.“

Á morgun er mánuður liðinn frá kosningum og enn óútséð hvenær þing verður sett. Starfandi forseti þingsins, Willum Þór Þórsson, segir ekki búið að tímasetja þingsetningu. „Ég held að það megi horfa til viðmiða eins og kærufrests sem að rennur út núna í næstu viku, á föstudag. Nefndin verður líka að fá þann tíma sem að þarf til þess að vinna þetta á þessum málefnalega og lögfræðilega grundvelli. Það er algert lykilatriði.“