Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Brjálæði" að hlaupa eitt og hálft maraþon fyrir hádegi

Mynd: Hans St. Bjarnason / RÚV

„Brjálæði" að hlaupa eitt og hálft maraþon fyrir hádegi

24.10.2021 - 19:25
Arnar Pétursson varð um helgina Íslandsmeistari í heilu maraþoni en hann lét ekki staðar numið þar heldur lagði af stað í hálfmaraþon 8 mínútum eftir að hann kom í mark. Arnar viðurkennir að þetta sé algert brjálæði en segir að maður þurfi í raun ekki að vera frábær hlaupari til að hlaupa langar vegalengdir.

Íslandsmótið í heilu og hálfu maraþoni fór fram í gær og tóku 36 hlauparar þátt í heilu maraþoni. Andrea Kolbeinsdóttir varð Íslandsmeistari í kvennaflokki og Arnar í karlaflokki þrátt fyrir að hann hafi sparað orkuna fyrir hálfa maraþonið.

„Ég hljóp mjög passíft í maraþoninu á tvær [klst] 52 [mínútur] cirka. Síðan liðu einhverjar átta mínútur á milli þangað til ég fór í hálfmaraþonið," sagði Arnar skömmu eftir að hann kom í mark í hálfmaraþoninu sem hann hljóp á 1:13:31 klukkustund. Heilmaraþonið hljóp hann á 2:51:47 klst og kom fyrstur í mark.

Úrslit í heilu maraþoni

Síðan byrjaði bara að slokkna á mér

108 hlauparar tóku þátt í hálfa maraþoninu þar sem Verena Karlsdóttir sigraði í kvennaflokki en það fór ekki svo að Arnar næði öðrum sigri. Þórólfur Ingi Þórsson kom fyrstur í mark og Arnar varð annar í röð Íslendinga þrátt fyrir að vera aðframkominn af máttleysi.

„Ég er eiginlega bara svolítið grillaður í hausnum. Ég er búinn með allt í kerfinu. Það virkar allt mjög hægt í gangi núna. Þetta er mjög skrýtin tilfinning. Mér leið mjög vel þangað til ég var búinn að hlaupa cirka 52 kílómetra. Þá var bara eins og það byrjaði að slokkna hægt og bítandi á mér. Ég var með svona 30 sekúndna forskot þar en síðan byrjaði bara að slokkna á mér. Ég bara rétt komst í mark hérna, sko."

Arnar lagði af stað í heilmaraþonið klukkan 8 á laugardagsmorgun og kom í mark eftir hálfmaraþonið upp úr klukkan 12 á hádegi. Hann hljóp því eitt og hálft maraþon fyrir hádegi.

Algert brjálæði

-Hvað fær menn til að fara út í svona brjálæði, er þetta ekki brjálæði? „Jú, ég myndi algerlega segja það. En af því að þetta var Íslandsmót í heilu og hálfu maraþoni langaði mig til að vinna bæði því þá hefði ég verið með tíu Íslandsmeistaratitla á árinu," segir Arnar sem kveðst þó næstum því geta eignað sér titilinn í hálfmaraþoninu líka. „Ég er náttúrulega að þjálfa þann sem vann."

Þar á Arnar við Þórólf Inga sem hljóp hálfmaraþonið á 1:12:02 klst og Arnar kom þriðji í mark, einni mínútu og 29 sekúndum á eftir en varð þó í öðru sæti Íslendinga. Þórólfur tók fram úr Arnari rétt eftir Nauthólsvík eða þegar um 5 kílómetrar voru eftir.

Úrslitin í hálfu maraþoni

Eins og að vera frábær í skák

39 ára Ítali komst í íþróttafréttir í vikunni fyrir að sigra í lengsta hlaup í heimi en hann hljóp tæplega 5 þúsund kílómetra á 42 dögum. Það liggur beinast við að spyrja Arnar hvað fái manneskju til að gera slíkt.

„Ég hef oft hugsað.. þegar þetta er komið yfir 80 km þá byrjar þetta meira að vera spurning um hversu sterkur þú ert í hausnum og líka hversu góður þú ert í að borða og taka inn næringu. Þú verður að geta borðað á ferðinni yfir langan tíma. Þetta snýst í raun ekkert um hvað þú ert frábær hlaupari heldur hversu sterkur í hausnum þú ert. Þetta er næstum eins og að vera frábær í hugaríþrótt eða skák. Þetta er ákveðin hugarleikfimi."

Viðtalið við Arnar og myndir frá hlaupinu má sjá í spilaranum hér hefst.

 

Tengdar fréttir

Frjálsar

Hljóp sem nemur vegalengdinni frá Íslandi til Flórída