Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Unglingapartý í Kópavogi og líkamsárás í miðborginni

Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglunni barst tilkynning um unglingapartý í Kópavogi laust eftir klukkan hálfeitt í nótt. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að húsið hafi verið troðfullt af unglingum og tómum áfengisumbúðum.

Gestgjafi er sagður vera sextán ára en gestirnir ungu yfirgáfu veisluna þegar forráðamaður hans kom á vettvang. Lögregla tilkynnti málið til barnaverndar.

Á þriðja tímanum í nótt réðust tveir ungir menn á ölvaðan eldri mann í miðborginni, börðu hann og spörkuðu í höfuð hans þar sem hann lá í götunni að sögn vitna að atburðinum.

Annar árásarmannanna var handtekinn og vistaður í fangageymslu en sá sem fyrir atlögunni varð var fluttur á bráðadeild Landspítalans með sjúkrabíl. Ekki er vitað hve alvarlega hann er slasaður. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV