Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það verður bara grátið í klukkutíma krakkar“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það verður bara grátið í klukkutíma krakkar“

23.10.2021 - 14:29

Höfundar

„Ég er að fara að tattúvera Alice Cooper maskara á mig og það verður rosalegt,“ segir Björk Guðmundsdóttir um lokatónleikana í tónleikaröð hennar Björk Orkestral sem nú stendur yfir. Björk kemur vel undan COVID-faraldrinum, kveðst aldrei hafa verið jafn jarðtengd en hún hugsar til kvenna af erlendum uppruna sem lokuðust inni í slæmum aðstæðum. Hún styrkir Kvennaathvarfið til að styðja þær.

Björk Guðmundsdóttir kemur þessa dagana fram á tónleikaröðinni Björk Orkestral í Hörpu. Á þessum fernum tónleikum leggur hún áherslu á útsetningar eða eins og hún orðar það sjálf montar hún sig af útsetningum sínum í gegnum tíðina, kór-, málmblásturs- og strengjaútsetningar frá tæplega þrjátíu ára sólóferli. Af því tilefni kíkti hún í Lestina á Rás 1 og sagði frá því hvernig er að stíga á svið eftir tveggja ára tónleikahlé.

„Hef ekki verið svona hlaðin síðan ég var sextán ára“

Aðrir tónleikarnir af fernum fara fram á morgun klukkan fimm og þá kemur fram með henni Hamrahlíðarkórinn undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Tónleikarnir verða sýndir á RÚV og þeim útvarpað á Rás eitt. Á undan útsendingunni má heyra ítarlegt viðtal við tónlistarkonuna en brot úr því hljómaði í Lestinni í vikunni. „Þetta var það sem átti að vera mest spontainious sem ég hef gert, en endaði með því að snúast upp í andhverfu sína. Það hentaði mér persónulega bara mjög vel,“ segir Björk um tónleikaröðina. Síðustu mánuði í heimsfaraldri naut Björk sín vel og tók því loksins rólega eftir miklar annir í nánast þrjá áratugi. „Ég hef aldrei átt eins æðislegan tíma og þessa átján mánuði í COVID. Að vakna á hverjum degi í mínu rúmi, alltaf jafn hissa og jarðtengd og róleg. Ég hef ekki verið svona hlaðin síðan ég var bara sextán ára,“ segir hún.

Hún velti því fyrir sér hve lánsöm hún væri að geta notið sín í ástandinu, en það gátu ekki allir og hún hugsaði til þeirra. „Við sem Íslendingar eru bara mjög spillt því við höfum það frekar gott miðað við aðrar þjóðir sem hafa þurft að díla við þennan sjúkdóm,“ segir hún.

Vildi styðja Íslendinga af erlendum uppruna

Black lives matter mótmælin voru hávær í Bandaríkjunum en fljótt fór fólk að taka þátt um allan heim, oft bara með takkasímann að vopni. „Það voru allir bara með svitakast það var svo mikil bylting í heiminum, jafnvel kórónuvírusinn þrýsti á það. Það voru allir fastir heima og gátu bara verið á netinu og gert byltingu með puttunum á bókstöfunum,“ segir Björk. Hún fór að velta því fyrir sér hvað hún gæti gert til að styðja við Íslendinga af erlendum uppruna. 

Sem fyrr segir verða tónleikarnir í beinni á RÚV en einnig verður hægt að kaupa sér aðgang að beinu streymi. Hluti ágóða af streyminu rennur til Kvennaathvarfsins. Björk tók þá ákvörðun til að styðja konur af erlendum uppruna sem búa á Íslandi við slæmar aðstæður. „Svo fór það í margar deildir og ég talaði við mikið af fólki, og þá kom niður að það væri í raun Kvennaathvarfið sem væri að styðja best þá sem verða verst úti. Það eru konur af erlendum uppruna í COVID sem voru fastar inni,“ segir Björk.

Allir búnir að dansa klukkan tíu

Við gerð á nýju plötunni hlustaði Björk á takta sem henni finnst hreyfa sig eins og vírus, eru kyrrir en hreyfa sig á sama tíma. „Flest lög sem ég hef gert eru 80-90 slög á mínútu og það er frekar boring ástæða fyrir því, það er að þegar ég labba þá labba ég á þeim hraða. En á þessari plötu er það rosa chill í fyrri helming lagsins og rosa rólegt en þegar það er ein mínúta eftir þá breytist lagið í klúbb. Bara í eina mínútu,“ segir Björk.

Slík lög segir hún að væru tilvalin í COVID-partí, sem voru fámenn á meðan samkomutakmarkanir voru stífar. „Fyrir fólk sem er að gera klúbba heima í stofunni sinni, fyrir þá sem eru í jólakúlunni þeirra,“ segir hún. „Maður stóð upp og headbangaði, settist svo aftur niður og fékk sér annað rauðvínsglas. Svo allir heim klukkan tíu, búnir að dansa og allt.“

Svo bara fara í partí að gleyma

Að standa á sviðinu eftir tveggja ára hlé segir Björk að hafi verið algjört klikk. Venjulega segir hún að tónleikar hennar séu fjölbreyttir en í þetta sinn er hún að vinna með sömu tilfinninguna í gegnum þá en núna eru ólík þemu á tónleikunum. Á morgun mun hún flytja lög af plötunum Medulla, Biophilia og Utopia og lýsir hún því sem fram fer sem djúpu trúnói með íslenskar rætur. Sunnudaginn 31. október munu svo hljóma lög af Vespertine, Volta og Utopia og þá segir hún að sérviskan muni skína. „Þegar maður er að gera eitthvað óvenjulegt og prófa tilraun með útsetningar, svolítið meira exóteríska hliðin á mér.“ Á lokatónleikunum verða svo flutt lög af plötunum Homogenic og Vulnicura. „Það er bara drama sko. Bara grátið í klukkutíma krakkar, ég er að fara að tattúvera Alice Cooper maskara á mig og það verður rosalegt,“ segir hún. „Bara sorglegu lögin back to back sko, svo bara fara í partí á eftir og gleyma. Klára þetta drama.“

Ítarlegt viðtal við Björk verður flutt í þættinum Sykur, trúnó, sérviska, grátur sem er á dagskrá á Rás 1 klukkan 16:05 á sunnudag. Brot úr því má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Innlent

Björk styrkir þjónustu við börn í Kvennaathvarfinu

Tónlist

Bjarkartónleikar í beinni útsendingu