Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Telur að reglur um skotvopn verði hertar

23.10.2021 - 19:42
Mynd: News Nation/Shutterstock / RÚV
Einn reyndasti kvikmyndagerðarmaður landsins gerir ráð fyrir að reglur um skotvopn í kvikmyndaiðnaði verði hertar eftir að Alec Baldwin varð tökustjóra að bana á fimmtudaginn. Leikarinn taldi sig handleika óhlaðna byssu.

Baldwin og Hutchins voru við tökur á kvikmyndinni Rust í Nýju Mexíkó þegar Baldwin skaut hana með leikmunabyssu. Hutchins var 42 ára og þótti mjög fær kvikmyndatökustjóri og blaðamaður. Skotið hæfði einnig leikstjórann Joel Souza en hann var útskrifaður af spítala í gær.

Eggert Ketilsson, einn reyndasti kvikmyndagerðarmaður Íslendinga sem komið hefur að myndum eins og Dunkirk, Interstellar og Tenet, - og er nú við tökur á myndinni Desert Warrior í Sádí-Arabíu - segir vart talað um annað þar en slysið.

„Allir voru mjög hissa að svona lagað gæti gerst í dag eftir allt sem búið er að gerast og ganga í gegnum í Bandaríkjunum, Evrópu, Íslandi og annars staðar í sambandi við reglur, lög og annað um skotvopn á tökustað,“ segir hann. 

Eggert segir reglurnar umfangsmiklar. Það sé ströng skráningar- og geymsluskylda, skoða þurfi vopn gaumgæfilega áður en þau eru tekin inn á tökustað og ekki megi beina byssu að manneskju. Þá þurfi að setja upp varnarbúr fyrir starfsfólk ef skjóta á í átt að myndavél.

Greint hefur verið frá því að Hutchins hafi ásamt öðru starfsfólki krafist bættra aðstæðna á tökustað og að hópur þeirra hafi lagt niður vinnu um tíma vegna skorts á öryggi.

„Það virðist hafa verið einhver losarabragur á þessu. Það er fólk sem leggur niður vinnu og annað og það virðist ekki hafa verið tekið til greina og lagað. Ég bara skil ekki af hverju svona getur gerst,“ segir Eggert.

Eiðsvarin vitni segja að aðstoðarmaður hafi afhent Baldwin byssuna með þeim orðum að hún væri óhlaðin.

„Það eiga aldrei að vera hlaðin skotfæri á tökustað. Aldrei. Þá þarf bara að stoppa tökur, fjarlægja fólk, reka fólk og stoppa þetta. Það eru mjög strangar reglur í þessu,“ segir Eggert.

Hann telur ólíklegt að Baldwin verði sóttur til saka, rannsóknin hljóti fyrst að beinast að yfirumsjónarmanni vopnanna. Þá segir hann að atvikið geti leitt til mikilla breytinga.

„Ég held að þessar reglur verði hertar. Það þarf að ganga í þetta greinilega svo að svona lagað geti ekki gerst.“