Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjórnvöld setja skilyrði fyrir sölu Mílu

Mynd: RÚV / RÚV
Íslensk stjórnvöld hafa gert þá kröfu við söluna á Mílu að tryggt verði að búnaður verði í íslenskri lögsögu og ávallt verði upplýst um raunverulega eigendur. Alþjóðlegt sjóðastýringarfyrirtæki hefur samþykkt að kaupa Mílu fyrir 78 milljarða króna.

Verðmiðinn fyrir Mílu er 78 milljarðar króna. Alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækið Ardian hefur gert samkomulag um að kaupa Mílu af Símanum. Ardian tekur yfir skuldir Símans og hagnast Síminn um 46 milljarða króna á viðskiptunum. Gert er ráð fyrir að íslenskir lífeyrissjóðir eignist tuttugu prósent í Mílu á tíu til ellefu milljarða króna. 

En hvað er verið að selja með sölunni á Mílu?

Í grunninn rekur Míla fjarskiptakerfi og færir fjarskiptaumferðina milli landshluta og út í heim. Heimilin sjálf eru aldrei í beinum samskiptum við Mílu því fyrirtækið er í raun heildsala. Til að útskýra hlutverk Mílu er hægt að líkja því við veg. Fjarskiptafyrirtækin kaupa svo afnot af veginum fyrir bíla sína. Almenningurinn leigir sér svo sæti í bílunum með viðskiptum sínum við fjarskiptafyrirtækin - til að mynda með síma-, sjónvarps- og netáskrift. Míla á einnig fjarskiptamöstur og húsnæði sem fjarskiptafyrirtækin leigja sér aðstöðu í. Míla á og rekur víðtækasta fjarskiptanet landsins.

15.000 milljarðar í eignastýringu

Ardian er með höfuðstöðvar sínar í París í Frakklandi. Fyrirtækið er með andvirði um 15.000 milljarða króna í eignastýringu eða ráðgjöf fyrir um tólf hundruð viðskiptavini víða um heim. Kaup Ardian á Mílu hafa verið rædd í þjóðaröryggisráði. 

„Við höfum átt mjög gott samtal við ríkisstjórnina og fulltrúa hennar um þetta og erum að fara í frekara samtal um fyrirkomulag. Það er mikið eftirlit með íslenskum fjarskiptafyrirtækjum, sérstaklega Mílu og það verður bara eflt,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Var það niðurstaðan í þjóðaröryggisráði að það verði settar auknar kröfur og skyldur á Mílu?

„Ja, við erum í samtali núna við fulltrúa ríkisins um að koma upp fyrirkomulagi. Ríkið getur auðvitað sett einhliða lög og eftirlitskvaðir ef ríkið vill það. En núna í fyrstu umferð erum við að ræða fyrirkomulag sem öllum hentar, tryggja að stýring á öllum búnaði verði í íslenskri lögsögu, að það sé vitað á hverjum tíma hverjir eru þessir eigendur. Sem betur fer eru Íslendingar meðal eigenda ef þetta gengur allt saman með lífeyrissjóðunum,“ segir Orri.

Bjartsýnn á að samkomulag náist um skilyrði stjórnvalda

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra átti fund með fulltrúum Ardian í sumar. Hann segir að óskað hafi verið eftir því að salan á Mílu verði rædd á ný í þjóðaröryggisráði. Hann er bjartsýnn á að samkomulag náist um skilyrði sem stjórnvöld setja fyrir sölunni og tryggja eiga þjóðarhagsmuni. 

„Skilyrðin lúta þá að því fyrst og fremst um hvort tiltekinn búnaður sé í lögsögu á Íslandi. Þetta snýst líka um eins og kom fram í frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga um að ákveðinn búnaður að mati Fjarskiptastofu sem þurfi og eftir ákveðna rýni fleiri ráðuneyta sé frá löndum sem við erum í varnar- og öryggissamstarfi við, þ.e.a.s fyrirtækjum. Og í þriðja lagi snýst þetta um upplýsingagjöf og á hverjum tíma sé upplýst til að mynda um raunverulega eigendur og fleiri hluti sem við erum að fara nánar ofan í. Við erum sem sagt að fara fram hér með samtal með það að markmiði að ná samkomulagi og ég hef fulla trú á að við náum því og kaupin eru gerð með slíkum fyrirvara. Ef hins vegar það gengi ekki eftir þá getum við sett lög,“ segir Sigurður Ingi.

Ráðherra getur bannað sölu til erlendra aðila

 

Formaður Viðreisnar hefur lýst áhyggjum af að með sölu á Mílu í framtíðinni geti fyrirtækið endað í rússneskum eða kínverskum höndum.

„Í fyrsta lagi hefur atvinnuvegaráðherra heimild til að banna sölu til erlendra aðila. Það breytist ekkert þó þessi viðskipti fari fram. Þessi samstæða, Síminn og Míla, hafa verið að stórum hluta í erlendri eigu áður.  Míla verður áfram íslenskur lögaðili með íslensk eftirlitsstjórnvöld sem fylgjast með. Allur búnaður er vestrænn og þetta eru vestrænir eigendur,“ segir Orri.

Þingmenn stjórnarandstöðu hafa lagt áherslu á að tryggt verði að erlendir aðilar komist ekki í persónuleg gögn landsmanna.

„Í tækniheiminum er aldrei neitt öruggt. Mesta hættan sem steðjar að fjarskiptainnviðum og upplýsingaöryggi eru miklu frekar tölvuþrjótar. Það er í hugbúnaðaruppfærslum og svo framvegis. Þeir sem reka ljósleiðarana og stýra þeim, það eru ekki þeir sem hættan steðjar að, heldur miklu frekar er hægt að koma bakdyraleiðina inn eins og við höfum séð á undanförnum vikum. Það er hægt að gera ýmislegt í tækniheimum. En sem betur fer eru þetta aðilar sem hafa rekið slík kerfið mjög farsællega út um Evrópu,“ segir Orri.

Síminn hugar að fleiru en fjarskiptaþjónustu

Hann segir að söluandvirðið verði nýtt til uppbyggingar Símans og þá fái hluthafar að njóta góðs af.

„Síminn breytist mjög mikið verður talsvert sveigjanlegra félag og ætlar að nýta sér sitt viðskiptasamband og traust sem það hefur meðal Íslendinga í eitthvað fleira heldur en bara fjarskiptaþjónustu,“ segir Orri.

 

Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV