Mynd: EPA-EFE - MTI

Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.
Sex mánuðir í kosningar en baráttan þegar hafin
23.10.2021 - 15:14
Kosningabarátta er hafin í Ungverjalandi sex mánuðum fyrir þingkosningar í landinu. Talið er að afar mjótt verði á munum milli flokks Viktors Orban og Peter Marki-Zay nýkjörins leiðtoga stjórnarandstöðunnar.
Tugir þúsunda fylgismanna Orbans söfnuðust saman í miðborg Búdapest í dag til að hlýða á ræðu hans. Marki-Zay heldur útifund síðar í dag en þegar hafa þúsundir komið sér fyrir þar sem hann hyggst tala.
Í dag er þess minnst að 65 ár eru liðin frá misheppnaðri uppreisn Ungverja gegn Sovétríkjunum. Sex stjórnarandstöðuflokkar mynduðu með sér bandalag gegn Fidesz flokki Orbans sem hefur löngum hagnast á einmenningskjörkerfi landsins.
Allt frá árinu 2010 hefur Orban sigrað með yfirburðum í kosningum en nú er búist við að á brattann verði að sækja fyrir hann í fyrsta sinn frá 2006 þegar hann beið seinast lægri hlut. Kannanir sýna mjög svipaðan stuðning við Fidesz og kosningabandalag minnihlutans.