Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Setja kirkjuþing í skugga hagræðingarkröfu

23.10.2021 - 09:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kirkjuþing verður sett í Bústaðakirkju í Reykjavík í dag og er þetta í 62. sinn sem þingið er haldið. Setningarathöfnin hefst klukkan tíu með helgihaldi sem frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, stýrir. Fjölmörg mál liggja fyrir þinginu, meðal annars hagræðingartillaga sem felur í sér að fækka prestum kirkjunnar á landsbyggðinni um tíu og hálft stöðugildi og draga úr sérþjónustu presta. Á sama tíma verði stöðugildum fjölgað á suðvesturhorninu.

 

Ráðningarbann og fækkun stöðugilda

Kirkjan hefur verið rekin með halla og gengur tillagan út frá því að miðað við tekjur hennar þurfi að fækka stöðugildum úr 145 í um 135.  Að auki liggja fyrir þinginu tillögur um að framlengja ráðningarbann sem aukakirkjuþing samþykkti fyrr á árinu og ná fram hagræði með sameiningu prestakalla. 

Streymt verður frá fundum kirkjuþings sem standa framá miðvikudag, eftir það verður fundum frestað fram í lok nóvember.Kjörtímabil núverandi kirkjuþingsmanna rennur út þegar 62. þingið lýkur störfum sínum. Á næsta ári verður kjörið til nýs kirkjuþings.

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV