Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir yfirlýsingu Samkeppniseftirlitsins heimóttarlega

23.10.2021 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir aðfinnslur Samkeppniseftirlitsins á því að hagsmunasamtök í atvinnulífinu blandi sér í opinbera umræðu um verðlag heimóttarlegar og fjarstæðukenndar.

Samkeppniseftirlitið brýndi í gær fyrir forsvarsfólki hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að taka ekki þátt í umfjöllun um verðlagningu eða markaðshegðun fyrirtækja. Í tilkynningu eftirlitsins er slík umfjöllun hagsmunasamtaka vegna yfirvofandi verðhækkana sökum hækkunar hrávöruverðs gagnrýnd.

Hækkun aðfanga eigi ekki sjálfkrafa að hækka vöruverð. Samkeppniseftirlitið segir ákvæði samkeppnislaga setja hagsmunasamtökum skorður við hagsmunagæslu sem þurfi því að fara varlega þegar umræða þeirra og fræðsla geti haft áhrif á markaðshegðun. Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands og Bændasamtök Íslands hafa svarað þessu fullum hálsi. Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Ég vil meina að þessi dæmalausa yfirlýsing Samkeppniseftirlitsins sé heimóttarleg og fjarstæðukennd í senn, og veki upp fleiri spurningar en hún svarar. Við erum mjög hugsi yfir þessu og mér finnst þessi yfirlýsing vera áfellisdómur yfir Samkeppniseftirlitinu og því ekki sæmandi.„

Eru þeir ekki bara að sinna sínu hlutverki og starfi?

Við teljum þá vera komna langt út fyrir sitt lögbundna hlutverk og teljum að Samkeppniseftirlitið sé þarna að marka nýja braut og komið út fyrir lögbundið hlutverk sitt.“ segir Halldór Benjamín.

Hann segir hagsmunasamtök reglulega tjá sig opinberlega um efnahagsþróun.

„Það getur ekki undir neinum kringumstæðum falið í sér brot á lögum um samkeppnisreglur og við höfnum þeirri túlkun Samkeppniseftirlitsins að öllu leiti.“ segir Halldór Benjamín.