Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kærðir fyrir að stofna lífi fólks í hættu í óleyfisíbúð

23.10.2021 - 19:30
Mynd með færslu
Svefnkassar hýstu verkamenn í Smiðshöfða  Mynd: Slökkvilið höfuðborgarsvæð
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur kært tvo fyrir að stefna lífi íbúa í hættu með því að leigja þeim óleyfilegt húsnæði við hættulegar aðstæður, og brot á lögum um brunavarnir. Í sumar féll fyrsti dómurinn, þar sem sakfellt var fyrir sams konar brot.

Talið er að nokkur þúsund manns búi í húsnæði sem ekki má nota til búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Í mörgum tilvikum er brunavörnum verulega ábótavant. Þannig var það í húsnæði starfsmannaleigu á Smiðshöfða, þar sem á þriðja tug erlendra verkamanna var hrúgað í svokallaða svefnkassa úr spónaplötum.

Fimmtíu metrar að næsta neyðarútgangi

Einar Bergmann fagstjóri forvarnasviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir að í raun hafi engar brunavarnir verið í húsinu, nema ein brunaslanga. „Í húsnæðinu var flóttaleiðum mjög ábótavant, það var í rauninni bara ein flóttaleið. Þær voru langar. Yfir 50 metrar. Allt efni sem var í húsinu var úr brennanlegum efnum. Rafmagni var mjög ábótavant,“ segir Einar. 

Í sumar var eigandi starfsmannaleigunnar dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stefna lífi íbúanna í hættu.

„Þessi dómur hefur þá þýðingu að okkar verklag virðist vera að halda og við séum þá með grundvöll til þess að keyra mál áfram og fara þá lengra með þau mál sem við erum með,“ segir Einar. „Þetta hefur ákveðinn fælingarmátt og þetta hefur vonandi þau áhrif að við getum sinnt okkar starfi betur.“

Þetta er í fyrsta sinn sem kært er og í fyrsta sinn sem dómur fellur fyrir slíkt brot. „Og líka athyglisvert út frá hvaða lagagrein, að það sé kært samkvæmt hegningarlögum og að það sé sakfellt samkvæmt þeim,“ segir Einar.

Fleiri mál í kæruferli - einn með langan brotaferil

Einar segir að Slökkviliðið hafi lagt fram kæru til lögreglu í tveimur svipuðum málum.

En eru brotin þar álíka alvarleg eða alvarlegri heldur en í þessu máli sem dæmt var í í sumar? „Það fer eftir hvernig við lítum á hlutina, en þau eru alvarleg gagnvart fólkinu sem sefur í þessum húsum og þau eru alveg á pari við þetta eða alvarlegri,“ segir Einar. Í öðru málinu er um álíka mikinn fjölda íbúa að ræða.

Annar aðilinn sem sætir kæru á langan brotaferil að baki og hefur áður verið sakfelldur fyrir annars konar lögbrot.