Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gagnrýnir ákvörðun um að selja Mílu

23.10.2021 - 18:50
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
 Mynd: RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR gagnrýnir harðlega þá ákvörðun Símans að selja fjarskiptafyrirtækið Mílu til alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian. Hann óttast að þetta leiði til verðhækkana á þjónustu og telur að lífeyrissjóðirnir, sem meirihlutaeigendur í Símanum, hefðu átt að koma í veg fyrir þessi viðskipti.

 

Ardian keypti Mílu af Símanum á 78 milljarða króna og hagnast Síminn um 46 milljarða á viðskiptunum. Kaupin eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Málið hefur tekið upp á vettvangi þjóðaröryggisráðs en Míla rekur ljósleiðarakerfi um allt land. Þingmenn og forystumenn stjórnarandstöðunnar hafa lýst yfir áhyggjum að verið sé að selja mikilvæga fjarskiptainnviði til erlendra aðila.

Margir lífeyrissjóðir eru í hópi stærstu eigenda Símans með yfir fimmtíu prósent eignarhlut. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að lífeyrissjóðirnir hefðu átt að koma í veg fyrir þessi viðskipti.

„Auðvitað hefðum við viljað sjá lífeyrissjóðina beita sér með meiri hætti heldur en þeir gerðu og koma í veg fyrir að þessir mikilvægu innviðir yrðu seldir út úr félaginu,“ segir Ragnar Þór.

Ragnar telur að með þessu sé verið að braska með mikilvæga innviði og stjórnendur lífeyrissjóða hafi brugðist sjóðsfélögum. Hann óttast að þetta leiði til verðhækkana á fjarskiptamarkaði.

„Ég sem neytandi hef verulegar áhyggjur af því að þetta muni gera það að verkum að þessi þjónusta muni hækka,“ segir Ragnar Þór.