Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Farið á svig við allar reglur“

23.10.2021 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: News Nation/Shutterstock - RÚV
Bandaríska leikaranum Alec Baldwin var sagt að byssan væri óhlaðin sem skot hljóp úr og varð tökustjóranum Halynu Hutchins að bana á fimmtudaginn. Einn reyndasti kvikmyndagerðarmaður Íslands segir að svo virðist sem farið hafi verið á svig við allar reglur um skotvopn á tökustað.

Baldwin og Hutchins voru við tökur á kvikmyndinni Rust í Nýju Mexíkó þegar Baldwin skaut hana með leikmunabyssu. Skotið hæfði einnig leikstjórann Joel Souza en hann var útskrifaður af spítala í gær.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu í Santa Fe hefur enginn verið ákærður eða handtekinn vegna atviksins en Baldwin hafi sjálfur gefið sig fram og svarað öllum spurningum greiðlega. Þá hafa vitni greint lögreglu frá því að aðstoðarmaður hafi afhent leikaranum byssuna með þeim orðum að hún væri óhlaðin.

Eggert Ketilsson, einn reyndasti kvikmyndagerðarmaður Íslendinga sem komið hefur að myndum eins og Dunkirk, Interstellar og Tenet, segir að svona slys eigi ekki að geta gerst.

„Þarna virðist hafa verið farið á svig við allar reglur um umgengni við skotvopn sem viðgangast annars staðar, bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum,“ segir hann.

„Þetta virðist hafa verið mynd sem að var fyrir utan þessi verkalýðsfélög sem temja sér þessar reglur,“ segir Eggert.

Greint hefur verið frá því að Hutchins hafi ásamt öðru starfsfólki myndarinnar krafist bættra aðstæðna á tökustað og að hópur þeirra hafi lagt niður vinnu um tíma vegna skorts á öryggi.

„Það er yfirleitt leikmunadeildin sem að sér um vopnin og það er sérstök manneskja á vegum leikmunadeildar sem er vopnaumsjónarmaður og ber ábyrgð á því að allt sé í lagi en svo er það fyrsti aðstoðarleikstjóri, leikstjóri og framleiðandi sem bera oft endanlega ábyrgð á að allt fari rétt fram,“ segir Eggert.