Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Danskir karlar leita unnvörpum í stafræn læknisráð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ný og hraðvirk stafræn aðferð virðist hafa orðið til þess að danskir karlmenn leiti frekar til læknis en áður var. Þar í landi, líkt og mögulega víðar, hafa karlmenn síður en konur leitað sér aðstoðar finni þeir fyrir krankleika.

Sú hegðun karla er sögð vera eins konar samfélagslegt vandamál og jafnvel valda því að karlmenn lifa skemur, líður verr og upplifa frekar einmanaleika svo eitthvað sé nefnt.

Á vef Politiken er greint frá ljósi í myrkri fyrir þá karlmenn sem hingað til hafa ákveðið að harka af sér kenni þér sér einhvers meins.

Dönsku tryggingafélögin Danica og Topdanmark bjóða nú öllum þeim sem hafa spurningar varðandi heilsuna að skrá sig inn gegnum síma eða tölvu og fá þannig beint samband við herskara lækna, sálfræðinga og næringarsérfræðinga. 

Þar er opið löngum stundum yfir daginn og eins um helgar en það sem af er ári hafa þúsundir Dana nýtt sér þjónustuna, meira en helmingur karlmenn.

Camilla Thind Sunesen, sérfræðingur í heilbrigðislausnum hjá Danica, segir það hafa komið skemmtilega á óvart í ljósi sögunnar. Hún telur að skýringanna sé að leita í því að þessi heilbrigðisþjónusta er veitt umsvifalaust og hennar er þörf.

Notendur losni við að bíða lengi í síma eftir aðstoð eða upplýsinga sem henti körlum vel. Svend Aage Madsen yfirsálfræðingur á Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn tekur undir það og segir karlmenn þurfa að fá heilbrigðisþjónustu hratt og örugglega.

Líklegast sé að þeir bíði sjálfir of lengi eftir aðstoð og veikindi þeirra uppgötvist seint sem leiði til langvarandi, dýrrar læknismeðferðar. Með því að mæta snemma til læknis dragi úr líkum á alvarlegum veikindum sem spari samfélaginu verulegar fjárhæðir og bæti lífskjör manna.