Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

78 milljarðar króna fengust fyrir Mílu

23.10.2021 - 12:24
Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV
Alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækið Ardian hefur gert samkomulag um að kaupa Mílu af Símanum á 78 milljarða króna. Hluti er í formi yfirtöku á skuldum. Gert er ráð fyrir að íslenskir lífeyrissjóðir eignist 20% í Mílu á 10-11 milljarða króna. Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að Ardian sé ekki að kaupa Mílu til þess að hlera símtöl Íslendinga. Síminn hafi átt í viðræðum við stjórnvöld og rætt hafi verið um að efla eftirlit.

Síminn hefur gert samkomulag við alþjóðlega sjóðastýringarfyrirtækið Ardian um sölu á öllum eignarhlut í fjarskiptafélaginu Mílu. Síminn hagnast um 46 milljarða króna á viðskiptunum. 

„Við erum alveg framúrskarandi ánægð með þennan sjóð sem er að kaupa í samvinnu við íslenska lífeyrissjóði. Það er mikil þekking þar og reynsla af innviðarekstri og uppbyggingu, sérstaklega í Evrópu,“ segir Orri.

Þetta kaupverð er býsna hátt, 78 milljarðar króna. Þetta er væntanlega langbesta boðið sem þið fenguð í Mílu?

„Við fengum mörg mjög góð boð. Við vorum ekki aðeins að hugsa um upphæðina. Þetta er mjög góð upphæð, en það voru fleiri sem voru að hugsa um mjög háar upphæðir. Við vorum líka að hugsa um það hvers konar samningssamband og hvers konar félagsskap við værum að fara inn í og okkur leist í heildina langbest á þetta,“ segir Orri.

Núna verða kannski margir hræddir um að þjónustan geti breyst við landsmenn?

„Breytingar sem verða verða fyrst og fremst jákvæðar. Þessi sjóður er mjög stór og vill koma miklu fé hratt í vinnu, ef svo má segja, og hefur áhuga á að byggja hraðar upp en við tvö, Síminn og Míla, hefðum getað gert. Sérstaklega eru úti um land ýmsir þéttbýlisstaðir þar sem vantar ljósleiðaratengingar inn í hús. 5G-tæknin er fyrst að ryðja sér til rúms núna og við getum gert það hraðar með svona öflugan bandamann. Þannig að ég held að breytingin verði bara hraðari uppbygging á fjarskiptainnviðum á Íslandi,“ segir Orri.

Núna hefur þessi sala verið rædd í þjóðaröryggisráði. Hvað finnst þér um það?

„Mér finnst það bara mjög gott að þjóðaröryggisráð sé að velta fyrir sér mikilvægum innviðum. Við höfum átt mjög gott samtal við ríkisstjórnina og fulltrúa hennar um þetta og erum að fara í frekara samtal um fyrirkomulag. Það er mikið eftirlit með íslenskum fjarskiptafyrirtækjum, sérstaklega Mílu og það verður bara eflt. Þannig að það á enginn að þurfa að vera tortrygginn. Þessir aðilar sem eru að kaupa, þetta eru Frakkar fyrst og fremst, og auðvitað menningarþjóð og láta sér ekkert mannlegt óviðkomandi en eru ekki að kaupa þetta til þess að hlera símtölin milli mín og þín. Þannig að þetta eru fyrst og fremst faglegir aðilar. En við viljum gjarnan passa að öllum líði vel með að það að það sé verið að gera þetta rétt. Eftirlitsgeta hins opinbera er mjög mikil og verður efld,“ segir Orri.