Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vinsæll sænskur rappari skotinn til bana

22.10.2021 - 07:27
Mynd með færslu
 Mynd: CHRISTINE OLSSON - TT NYHETSBYRÅN
Lögregla var kölluð til vegna skotárásar í Hammarby suður af Stokkhólmi í Svíþjóð í gærkvöld. Nítján ára karlmaður hafði verið skotinn í höfuðið og bringuna og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést. Sænskir miðlar nafngreindu manninn í morgun en hann hét Nils Kurt Erik Einar Grönberg. Hann var landsþekktur sem rapparinn Einár.

Samkvæmt sænskum miðlum var ráðist á hann nærri heimili sínu í Hammarby. Tveir menn sáust flýja af vettvangi að sögn sjónarvotta og lögregla hóf morðrannsókn í gærkvöld. Enginn hefur verið handtekinn en lögregla segist vita nokkurn veginn með vissu hvernig árásin átti sér stað en fjöldi fólks varð vitni að henni. 

Einár fæddist í Stokkhólmi og ólst þar upp. Hann skaust ungur upp á stjörnuhimininn og hefur gefið út fjölda laga sem náð hafa efsta sæti sænska vinsældalistans. Þá hefur hann unnið til fjölda verðlauna fyrir tónlist sína, meðal annars sem nýliði ársins á sænsku Grammy-verðlaununum í fyrra. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV