Sullandi heilaslettur og blóðbað í barnaleikjum

Mynd: Netflix / Netflix

Sullandi heilaslettur og blóðbað í barnaleikjum

22.10.2021 - 09:53

Höfundar

Squid game, eða smokkfiskaleikur, er margrómaður og ofurofbeldisfullur suður-kóreskur Netflix-þáttur sem hefur vakið upp sannkallað æði um allan heim. Þættirnir sýna fátækt fólk í stéttskiptri Suður-Kóreu sem í vonleysi og örvæntingu leikur barnaleiki til að freista þess að fá vegleg peningaverðlaun og snúa við blaðinu, jafnvel þó leikurinn muni mögulega frekar kosta það lífið. Júlía Margrét Einarsdóttir rýndi í þættina.

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:

Hvað ef maður byrjaði lífsins leik með svo léleg spil á hendi að maður ætti gott sem enga möguleika frá byrjun? Það er jú veruleiki skelfilega margra í heiminum að ekkert blasir við nema einstefna niður í myrkrið. Hvað ef örvæntingin væri þá orðin slík að maður fyndi sér enga leið út úr skuldafeninu, og klúðrið væri slíkt að ástvinir manns sneru við manni baki? Ef hver dagur ýtti manni lengra inn í völundarhúsið og lyklarnir væru löngu horfnir ef þeir voru einhvern tíma til, hvernig myndum við, ef við værum í þeim sporum, bregðast við ef einn daginn þegar vonin virtist engin en skyndilega rofaði til? Við blasti tækifæri til að vinna sér inn slík auðæfi að þau myndu endast manni ævina? Myndum við hrökkva eða stökkva?

Einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, Dimmalimm og þú ert dauður

Viðsnúningur yrði algjör ef rétt væri spilað úr þessum glænýju spaðaásum. Enginn sem maður elskaði myndi nokkurn tíma líða skort, peningaáhyggjur væru úr sögunni, sömuleiðis hungur, kuldi, ótti, vonleysi en tækifærin væru óþrjótandi. Ferðalög, dýr matur, háhýsi, demantar og fyrst og fremst algjört öryggi blasti við manneskju sem aldrei lét sig einu sinni dreyma um neitt af þessu. Það eina sem þarf að gera er að fara í leik. Nokkra leiki reyndar, ekki flókna, reyndar þá sömu og flest börn í heiminum hafa leikið á skólalóðinni, í íþróttahúsum og afmælisveislum. Einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, Dimmalimm. Sá sem vinnur alla leikina fær að launum risastóra peningaupphæð. Glænýja von. Aldrei aftur skortur. Hljómar einfalt ekki satt? Og ansi freistandi.

Blóð og heilaslettur á leikskólavellinum

En hvað verður um þá sem tapa í leikjunum, eru þeir úr leik? Eitt tvö þrjú og það varst þú sem varst úr. Já, þeir eru endanlega úr leik, bæði í leiknum á leikskólavellinum en líka í lífinu sjálfu því þeir fá í refsingarskyni eina væna byssukúlu í hausinn svo leikvöllurinn verður fagurrauður, skreyttur með blóði taparanna og heilaslettum þeirra. Hljómar tækifærið enn freistandi? Varla. En er það minna freistandi en að fara aftur til baka í gamla lífið þar sem tækifærin eru engin og vonleysið algert? Það er spurningin sem persónur þáttanna Squid game þurfa að spyrja sig.

Allir og amma hans hringdu á saklausan veitingastað

Þættina þarf svo sem vart að kynna fyrir nokkrum Íslendingi, þeir hafa verið þeir vinsælustu á streymisveitunni Netflix í nokkrar vikur, bæði hér á landi og um allan heim. Ekkert lát er á stöðugu streyminu og það stefnir í að þessir suður-kóresku þættir verði þeir vinsælustu sem sýndir hafa verið á streymisveitunni frá upphafi. Þeir hafa verið til umfjöllunar um allt á samfélagsmiðlum og jafnvel í fréttum.

Talsverðar áhyggjur hafa sprottið upp um áhrif þess á ungdóminn að sjá sakleysislega barnaleiki þeirra í svo ofbeldisfullu samhengi. Einnig varð uppi fótur og fit þegar í ljós kom að símanúmerið sem birtist í þáttunum, sem númerið hjá þeim sem stýra leiknum, leiddi forvitna áhorfendur áfram og þeir slógu á þráðinn á veitingastað sem annaði ekki símtölum frá fólki sem vildi vita hver svaraði símanum. Þau ætluðu sér bara að taka við pöntunum og borðabókunum og skildu ekki beiðnir sem hrúguðust frá fólki sem vildi vita hvort þau byðu upp á smokkfiskaleik fyrir fátæka.

Á ýmsu hefur gengið síðan þættirnir voru fyrst sýndir og vinsældirnar líklega margfalt meiri en nokkurn sem að þeim stendur óraði fyrir. Það má segja að æði hafi gripið um sig um allan heim.

Höfundur ólst sjálfur upp í fátækt og enginn vildi framleiða þættina

Þættirnir eru úr smiðju leikstjórans Hwang Dong-hyuk sem leikstýrir öllum þáttunum og skrifar þá. Sjálfur átti hann erfiða æsku, fæddur inn í mikla fátækt og upprunaleg hugmynd hans var að fjalla um stéttaskiptingu í Suður-Kóreu og þá ömurð sem blasir við fólki eins og honum sem tilheyra lægri stéttum þar í landi. Hann skrifaði handritið upprunalega árið 2009 en tókst ekki að fá neinn til að framleiða þá, ekki fyrr en Netflix ákvað að leggja meiri áherslu á erlent sjónvarpsefni og sýndi þeim áhuga árið 2019. Leiða má líkum að því að nokkur ánægja sé í herbúðum Netflix með að hafa veðjað á þættina miðað við þessar ótrúlegu viðtökur.

Sjálf hafði ég heyrt mikið um þættina, verið oft spurð hvort ég hefði séð þá við kaffivélina og á samkomum áður en ég byrjaði sjálf að horfa svo ég vissi að það væri eitthvað í vændum, eitthvað öðruvísi, stærra og meira en hefðbundin afþreying til að háma í sig fyrir svefninn. Eitthvað sem ylli því að allir vilja tala um þá.

Rottugangur, brenndar brýr og algjört vonleysi

Í fyrstu fannst mér framvindan nokkuð hæg, kannski fyrst og fremst óþægileg. Okkur er gert fullkomlega ljóst hve ömurlegt og vonlaust líf Seong Gi-Hun er, en hann er aðalpersóna þáttanna, maður á miðjum aldri. Mamma hans er veik og hann getur ekki hjálpað henni, dóttir hans á afmæli og hann getur ekki gefið henni afmælisgjöf. Allir eru að gefast upp á honum, ekki síst hann sjálufr. Sviðsetningin hér ýtir undir eymdina á allan hátt, dimm skúmaskot, rottugangur, myrkur og auðvitað endalaus rigning sem aldrei virðist slota.

Barnsmóðir hans á nýjan mann sem er með fullkomna beinabyggingu og allt sitt á hreinu í íbúð sem er skipulagðari og bjartari en í Húsi og híbýlum. Song Gi-Hun er sjálfur er að flýja skuldir og sjálfan sig en heldur samt áfram að veðja - og er laminn í klessu fyrir að geta ekki borgað. 

Ömurleg tilvist af sorglegum ástæðum

Þegar öll sund virðast lokuð kemur kallið. Maður vindur sér að honum á lestarstöð, þegar spilaborgin virðist endanlega hrunin, og býður honum að leika leikinn. Hann þarf bara að hringja í tiltekið símanúmer og hann er orðinn þátttakandi.

Hann slær til enda tækifærin alls ekki á hverju strái, hann er auðvitað til í leik ef sigur í leiknum getur fært honum fúlgur fjár. Skilmálana samþykkja 455 manns í viðbót sem öll eru við það að gefast upp. Spilurum er öllum hrúgað saman í kojur í suðandi björtum sal í búningum með númeri framan á. Þau hafa engin nöfn, þau eru bara númer. Þó þau hafi öll samþykkt þátttöku á sömu forsendum er þetta ólíkur hópur fólks í öngstræti í sínu lífi af mismunandi ástæðum sem eru hver annarri sorglegri.

Squid game og Parasite

Allir hafa þó sömu tækifæri í leiknum, sem alls ekki gildir úti á götu. Það er þeim gert ljóst. Engin stéttaskipting en hún er líklega meginþema þáttanna, vandamál sem fleiri suður-kóreskum kvikmyndagerðarmönnum er hugleikið. Vestrænir áhorfendur kynntust því umfjöllunarefni einnig í suður-kóreskri kvikmyndalist í Óskarsverðlaunamyndinni Parasite, en það er önnur saga.

Vinaleg kvenmannsrödd tilkynnir hver muni deyja

Leikjunum stýrir hópur fólks í rauðum búningum með grímu, sem hreyfir sig í takt, gerir þau ómanneskjuleg og vekur óhug. Höfuðpaurinn er einnig með grímu sem hylur andlit hans og hann hreyfir sig vélrænt, hlustar á djass á meðan hann fylgist með leikunum og talar hægum tölvurómi.

Til að skýra reglurnar í leiknum hljómar kurteisisleg kvenmannsrödd sem endurtekur sig og biður þátttakendur vinsamlega að fylgja reglum, eins og hún sé að fara með öryggisleiðbeiningar í flugi eða á lestarstöð og vinsemdin í róm hennar gerir aðstæður líka enn súrrealískari þegar blóðið byrjar að spýtast um allt.

Töfrandi illska á bakvið tjöldin

Um leið og leikar hefjast breytist öll umgjörðin og við kynnumst því ríkidæmi og glamúr sem ríkir á bakvið tjöldin. Þar verður sviðsetningin í senn töfrandi og óhugguleg, fólk með grímur sem einskis svífst fylgist með því sem fram fer í gegnum sjónvarpsskjá. Fátæklingarnir berjast upp á líf og dauða til að skemmta ríka fólkinu.

Allt er þetta ansi brútal, blóðugt og það runnu nokkrar grímur á mig eftir að horfa á fyrsta þáttinn þegar ég áttaði mig á því að ég ætti átta klukkutíma þætti eftir af þessum vessafossi og dauða. Ofbeldi og heilaslettur hafa alla jafna fælingarmátt fyrir mig þegar það birtist á skjánum en eftir um tvo þætti, sérstaklega kannski eftir þann þriðja, varð ómögulegt að slíta sig frá skjánum.

Einvíðir karakterar sýna loksins á sér nýjar hliðar

Í fyrstu fannst mér sögupersónur nokkuð einvíðar, sá sem var hrekklaus og seinheppinn var alltaf að segja eitthvað heimskulegt, gamli ruglaði maðurinn var endalaust elliær, klikkaða konan öskraði út í eitt og sá spaki og vitri var þögull og gáfulegur. En sérstaklega í einni þrautinni í fyrstu þáttunum verða vendingar, persónurnar sýna á sér dýpri og manneskjulegri hliðar.

Vinátta, svik og óvænt samstaða halda áhorfandanum algjörlega á tánum og eins og í vel skapaðri spennu verða söguvendingar sem koma algjörlega flatt upp á mann þegar líður að lokum, og setja margt af því sem á undan er gengið í algjörlega nýtt samhengi. Mest snart mig óvænt vinátta tveggja kvenna og mikilvægt samtal þeirra á milli sem ristir djúpt og vekur örlitla von í vonleysinu.

Mennska, ást, vonleysi og hamingja eða óhamingja í allsnægtum

Að lokum vekja þættirnir mann til verulegrar umhugsunar um einmitt þessa stéttaskiptingu, fátækt og allsnægtir og bilið þar á milli. Um mennsku, ást, von og vonleysi. Hversu mikil örvænting getur gripið um sig þegar það er engin leið að losa sig úr viðjum fátæktarinnar. Ekki síst þó kannski um hamingjuna og að hversu miklu leyti hægt er að kaupa sér hana fyrir veraldleg gæði.

Fyrir viðkvæmar sálir sem elska gott sjónvarpsefni, vandaða karaktersköpun og magnaða sviðsmynd mæli ég eindregið með Squid game. Ekki sakar þó að vera með nokkur hugljúf kettlingavídeó tilbúin þegar áhorfinu lýkur.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Vinsæl þáttaröð setur líf veitingasala úr skorðum