Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sjötíu nemendur þurftu fyrr heim úr ungmennabúðum

22.10.2021 - 09:09
COVID-19 · Innlent · Menntamál · UMFÍ
Mynd með færslu
 Mynd: ungmennabúðir umfí
Sjötíu nemendur í níunda bekk voru sendir heim úr ungmennabúðum Ungmennafélags Íslands í gær eftir að kórónuveirusmit greindist hjá einum þeirra. Nemendurnir komu í búðirnar á mánudag og hefðu að óbreyttu farið heim um hádegisbil í dag. Unnið er að ítarlegri sótthreinsun húsnæðis ungmennabúðanna, segir í tilkynningu frá Ungmennafélaginu. Þá fer allt starfsfólk í smitgát og PCR-próf.

 

Voru við þessu búin

Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Ungmennabúðanna, segir að starfsfólkið sé búið undir aðstæður eins og þessar og að unnið hafi verið í nánu samráði við Almannavarnir og yfirvöld. 

„Okkur þykir alveg ótrúlega leiðinlegt að smit hafi komið upp í búðunum. Það var búið að vera svo gaman hjá nemendunum í vikunni og þeim liðið alveg frábærlega vel á Laugarvatni. Engum er um að kenna að svona fór,‟ segir Sigurður.  

Markmiðið að styrkja félagsfærni og umhverfisvitund

 Ungmennafélag Íslands, UMFÍ, hefur starfrækt ungmennabúðir frá árinu 2005. Þær eru fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla um allt land og eiga þeir möguleika á að dvelja í búðunum frá mánudegi til föstudags við leik og störf. Markmiðið með dvöl ungmennanna er að styrkja félagsfærni þeirra, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu, samfélagi og mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi. Sigurður segir búðirnar njóta síaukinna vinsælda, þar fái unglingarnir kærkomna hvíld frá tölvum, farsímum og öðru sem truflar.