Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óvenju margir heimilislausir kettir á vergangi

22.10.2021 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd: Villikettir
Samtökin Villikettir hafa þurft að sinna óvenju mörgum heimilislausum köttum á vergangi í haust, segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir formaður Villikatta. „Við vitum ekki ástæðuna, en höfum verið að geta í eyðurnar“ segir Arndís, en þeim dettur helst í hug að fólk sé að losa sig við gæludýr sem það eignaðist á tímum samkomutakmarkana.

„Við hræddumst þetta mjög í Covid, að fólki sem leiddist heima fengi sér ketti sem kúrudýr. Þetta er að koma í hausinn á okkur núna“ segir Arndís.

„Þær eru ótrúlega margar á vergangi. Ég veit ekki hvort fólk hafi gert sér grein fyrir ábyrgðinni. Kisur hafi orðið fyrir valinu sem gæludýr þar sem margir telji þær bara sjá um sig sjálfar.“

Segir aldrei hafa verið skortur á kettlingum

„Það fór einhver vitleysa í gang um að það hefði verið skortur á kettlingum, það var ekki. En þetta varð til þess að einhverjir tóku að sér kisur í þeim tilgangi að fá kettlinga til að selja“ segir Arndís. „Og núna er allt yfirfullt hjá okkur af vergangs kisum“.

Áður fyrr sinntu samtökin að miklu leyti Villiköttum, sem eru kettir sem aldrei hafa búið inni á heimilum. Nú er hins vegar önnur þróun og svokölluðum vergangs köttum, sem áður bjuggu á heimilum fólks, hefur fjölgað mikið.

Enn mikil eftirspurn hjá Dýrahjálp

Valgerður Valgeirsdóttir, formaður dýrahjálpar, sagði að enn væri töluverð eftirspurn eftir gæludýrum þaðan. „Staðan hér á Íslandi er svolítið öðruvísi en erlendis. Hér var byrjuð þróun töluvert fyrir Covid þar sem eftirspurn eftir dýrum var oft meiri en framboð. Svo fólk hefur getað valið eigendur af kostgæfni“.