Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nánar um nagladekk

22.10.2021 - 10:40
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Stefán Gíslason ræddi um vetrardekk og flækjurnar í kring um það.

Stefán Gíslason les:

Nú er vetrardekkjatímabilið að ganga í garð og þá standa margir frammi fyrir ákvörðun um það hvort rétt sé að kaupa negld eða ónegld vetrardekk. Við þeirri flóknu spurningu er ekki til neitt eitt rétt svar, ekki frekar en við öðrum flóknum spurningum, enda gildir almennt sú meginregla að sé til eitt einfalt svar við flókinni spurningu, sé það örugglega rangt.

Sjálfskipaðir sérfræðingar

Að öllu gamni slepptu er umráðamönnum bifreiða vandi á höndum þegar kemur að dekkjavalinu. Hér um bil allir aðrir umráðamenn bifreiða eru nefnilega sjálfskipaðir sérfræðingar á þessu sviði og þá stendur ekki á svörum þegar beðið er um góð ráð. Sé ég til dæmis beðinn um álit út frá eigin reynslu segi ég hiklaust, sem satt er, að ónegld vetrardekk hafi reynst mér svo vel að nú séu liðin 24 og hálft ár síðan ég átti síðast nagladekk. Síðan þá hef ég ekki talið mig þurfa á þeim að halda, þrátt fyrir að hafa búið úti á landi nánast allan tímann og þrátt fyrir að ég eigi oft leið lengra út á land yfir vetrartímann. Ég vel dekkin mín einfaldlega út frá árlegri vetrardekkjakönnun í FÍB-blaðinu, þar sem ég les bara einkunnir ónegldra dekkja.

Álit mitt út frá eigin reynslu er álíka gagnslaust og álit allra hinna sjálfskipuðu vetrardekkjasérfræðinganna. Þetta álit er nefnilega byggt á rannsókn þar sem n=1, eða með öðrum orðum rannsókn með einum þátttakanda, sem sjálfur er líka rannsakandinn. Af þessu má ljóst vera, að þeir sem vilja vanda sig við vetrardekkjaákvörðunartökuna ættu að spyrja einhvern annan en mig og líka einhvern annan en hina sjálfskipuðu sérfræðingana. Til dæmis væri upplagt að kynna sér óháðar rannsóknir á ágæti mismunandi dekkja.

Hvað segja vísindin?

Rannsóknarstofnunin VTI í Svíþjóð, eða Statens väg- och transportforskningsinstitut, eins og stofnunin heitir á sænsku, er ríkisrekin og óháð stofnun sem telst vera leiðandi í samgöngurannsóknum. Á heimasíðu stofnunarinnar, vti.se, er hægt að nálgast ýmsan fróðleik um vetrardekk, sem byggður er á mun traustari grunni en reynsla mín og annarra sjálfskipaðra vetrardekkjasérfræðinga.

Áður en lengra er haldið er rétt að minna á að í rauninni er hægt að skipta ónegldum vetrardekkjum í tvo undirflokka, þ.e.a.s. annars vegar eiginleg vetrardekk sem henta við norrænar aðstæður og hins vegar svokölluð heilsársdekk sem geta sem best dugað á vetrum sunnar í Evrópu. VTI gerir einmitt skýran greinarmun á þessu tvennu. Til að spara tíma verða heilsársdekkin ekki rædd frekar í þessum pistli, enda líklega ekki rétt að mæla með þeim á íslenskum vetri.

Veggrip

Ef við lítum fyrst á veggripið, þá segir VTI að nagladekkin hafi klárlega betra grip í snjó og hálku, sérstaklega á blautu svelli. Frammistaða nagladekkjanna við þessar aðstæður ræðst þó mjög af því hversu langt naglarnar standa út úr dekkinu. Svo er alltaf einhver hætta á að naglarnir yfirgefi dekkin þegar hemlunum er beitt harkalega, jafnvel á hálum ís. Þá er hætt við að frammistaðan versni þegar vikurnar líða. Ónegldu norrænu dekkjunum fer hins vegar frekar lítið aftur með tímanum. Á blautu malbiki er veggrip nagladekkjanna og ónegldu norrænu dekkjanna svipað.

Slit á vegum

Sjálfsagt kemur fáum á óvart að nagladekkin slíta yfirborði vega meira en ónegldu dekkin. Það er samt ekkert alslæmt, því að veggripið er betra ef malbikið er svolítið veðrað. Svo tæta nagladekkin líka upp snjó og klaka og minnka þannig hálkuna smátt og smátt. En þá þarf nagladekkjanotkunin að vera a.m.k. 50% til að áhrifin komi fram, ef marka má norskrar rannsóknir.

Á svæðum þar sem nagladekk eru mikið notuð er gjarnan reynt að nota sem slitsterkast slitlag á vegina. Þannig er það alla vega í Svíþjóð. Eftir því sem slitlagið er harðara verður veghljóðið meira – og auk þess verður viðnámið meira sem leiðir til meiri eldsneytiseyðslu og þar með til meiri koldíoxíðlosunar. Sums staðar hefur verið reynt að leggja hljóðdempandi slitlag til að minnka umferðarhávaðann, en svifryk frá nagladekkjunum skemmir þá virkni með því að setjast í hárfínu ójöfnurnar sem eiga að dempa hljóðið.

Dýpri hjólför

Dýpri hjólför í malbikinu eru ein af birtingarmyndum aukins slits á vegum. Sænskar rannsóknir benda þó til að slíkt auki ekki slysatíðni. Reyndar eykst hættan þegar vatn eða ís safnast í hjólförin, en á móti dregur úr hættunni á þurrum vegum, einfaldlega vegna þess að flestir ökumenn sýna meiri aðgát á vondum vegum en góðum.

Áhrif á heilsuna

Nagladekk hafa augljóslega í för með sér meira svifryk en ónegld dekk – og almennt er svifryk skaðlegt fyrir heilsuna. Fólk sem andar að sér miklu svifryki þarf frekar að glíma við hjarta-, æða- og öndunarfærasjúkdóma en annað fólk og deyr frekar fyrir aldur fram. Í þessu sambandi er þó nauðsynlegt að hafa í huga að svifryk er ekki bara svifryk, þar sem skaðsemin ræðst m.a. af kornastærðinni. Svifryk sem nagladekk valda er grófara en t.d. svifryk úr útblæstri bíla. Grófa rykið (sem oft er talað um sem PM10) leiðir frekar til langvinnrar lungnateppu og astma, en fínna rykið (PM2,5) stuðlar frekar að hjartasjúkdómum, svo þetta sé nú einfaldað aðeins. Þetta er þá kannski spurning um hvort maður velur; bara fínna rykið – eða bæði.

Áhrif á umhverfið

Þegar horft er á umhverfisáhrifin koma ónegldu dekkin betur út. Nagladekkjunum fylgir meira svifryk eins og áður segir, og það hefur ekki bara neikvæð áhrif á heilsu, heldur á það líka sinn þátt í mengun jarðvegs og vatns í nágrenni við umferðaræðar. Jafnframt verða bílarnir óhreinni, sem leiðir til aukinnar notkunar á hreinsiefnum. Viðhald á vegum eykst og því fylgir aukin losun gróðurhúsalofttegunda. Þá skapa ný nagladekk miklu meiri hávaða en ónegld dekk, sérstaklega þar sem umferðarhraðinn er tiltölulega lítill, t.d. undir 60 km/klst. Ónegld vetrardekk eru hins vegar jafnvel hljóðlátari en sumardekk, af því að gúmmíið í þeim er mýkra og skurðurinn í mynstrinu fíngerðari.

Slysatíðni

Rannsóknir á áhrifum dekkjavalsins á slysatíðni á vetrum eru frekar ósamhljóða að sögn VTI. Nýlegar sænskar og norskar rannsóknir benda til að mynda ekki til að slysatíðni á ónegldum dekkjum sé hærri. En þetta snýst ekki endilega um dekkin, því að líklegt má telja að dekkjavalið tengist viðhorfum fólks og hafi áhrif á aksturshegðun. Þarna er með öðrum orðum erfitt að fullyrða eitthvað um raunverulegt orsakasamhengi. Og svo spilar líka fleira þarna inn í, m.a. aldur bíla og hvort þeir séu með skriðvörn og ABS-bremsur, sem er sjálfsagt í flestum nýjum bílum. Skriðvörnin dregur ótvírætt úr slysatíðni, en VTI minnir samt á að skriðvörn kemur ekki í staðinn fyrir góð dekk.

Það sem skiptir máli

Með hliðsjón af framansögðu eru ráð dagsins þessi: Akið varlega – á góðum dekkjum.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður