Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Menn voru með góðan ásetning um að kveikja í húsinu“

Mynd með færslu
 Mynd: Slökkviliðið á höfuðborgar
Fagstjóri forvarnasviðs Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins segir að það hafi markað tímamót þegar héraðsdómur sakfelldi forráðamann óleyfishúsnæðis á grundvelli hegningarlaga í júní. Manninum var meðal annars gefið að sök að hafa í gróðaskyni lagt líf og heilsu á fjórða tug erlendra verkamanna í hættu. Mennirnir sváfu í fjögurra fermetra svefnkössum úr timbri og brunavarnir voru svo til engar.

Ekki það versta

Einar Bergmann Sveinsson, fagstjóri forvarnasviðs Slökkviliðsins, segir að málið hafi verið mikilvægt prófmál enda það fyrsta sinnar tegundar sem slökkviliðið kærir til lögreglu. „Þetta er ekki það versta sem við höfum séð, þetta er bara fyrsta málið sem við kærum. Við erum vonandi að feta okkur inn á rétta braut, láta kné fylgja kviði og fara alla leið með þau mál sem við sinnum,“ segir Einar.

47 metra flóttaleiðir

Einar rakti forsögu málsins á námsstefnu sem Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna stendur fyrir nú um helgina og ber yfirskriftina: „Á vakt fyrir Ísland“.

Hér má fylgjast með streymi frá námsstefnunni. 

Lögreglan varð þess áskynja í febrúar 2018, þegar hún var að rannsaka önnur mál, að brunavarnir væru ekki eins og best væri á kosið í húsinu og hafði því samband við slökkviliðið. Slökkviliðið fór á staðinn og tók ákvörðun um að loka húsnæðinu samdægurs. Ástandið var talið mjög alvarlegt og brunavarnir svo til engar.

Mynd með færslu
 Mynd: Slökkviliðið á höfuðborgar
Svefnaðstaðan.

Í tveggja hæða samstæðu af viðarkössum sváfu að minnsta kosti 32 erlendir verkamenn. Flóttaleiðir voru allt að því 47 metra langar og mikill eldsmatur. Rafmagn var allt raðtengt, framhjá rafmagnstöflu og lekaliðum, því það var alltaf að slá út. „Menn voru með virkilega góðan ásetning í því að reyna að kveikja í húsinu,“ segir Einar. 

Í einu herbergi voru níu ísskápar, þá var eldað á gasi og fyrir ofan eldavélina var pappaspjald í stað viftu.

Forráðamaður húsnæðisins hélt því fram að hann hefði útbúið nýtt húsnæði, sem væri fyrrum gistiheimili, og ætlaði að flytja alla þangað innan viku. Einar leggur ekki mikinn trúnað á það, enda hafi viðkomandi verið að undirbúa fleiri svefnkassa í húsinu. 

Sakfelldur í öllum liðum

Slökkviliðið réðst í mikla undirbúningsvinnu, aflaði gagna, kallaði til byggingafulltrúa og heilbrigðisfulltrúa og fékk sérfræðinga frá rafmagnsöryggissviði húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til þess að taka húsnæðið út. Um miðjan apríl kærði slökkviliðið málið svo til lögreglu.

Héraðssaksóknari gaf út ákæru í október í fyrra og í júní var forráðamaður húsnæðisins, sem á sér ekki aðra brotasögu, dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á ýmsum lögum og reglum; lögum um brunavarnir, almennum hegningarlögum, reglugerð um eldvarnir og eldvarnareftirlit og almennri byggingareglugerð. „Nánast hvar sem við komum niður var brotalöm á þessu,“ segir Einar Bergmann. Stuðst var við 220. grein almennra hegningarlaga, um að ekki megi stofna heilsu og lífi fólks í hættu í gróðaskyni.

Eigandinn var ekki ákærður, þar sem rannsókn leiddi í ljós að hann hefði gert forráðamanninum ljóst að ekki mætti búa í húsinu.  Einar hefði þó viljað láta á það reyna. 

„Við erum að feta nýjar brautir en það sem er jákvætt er að ákæruvaldið tók undir allt. Niðurstaðan var sú að viðkomandi var sakfelldur fyrir alla liði ákærunnar.“

Hann hefur eftir Kolbrúnu Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara, að það væri óvenjulegt að sakfella í öllum ákæruliðum, og telur það til marks um að undirbúningur slökkviliðsins hafi verið vandaður. 

„Hann fékk dóm fyrir þetta og það er ekki hægt að draga það til baka, þannig að við erum að láta reglurnar virka og vonandi hefur þetta forvarnargildi,“ segir Einar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Slökkviliðið á höfuðborgar
Rafmagnið.

Alvarlegra mál á borði lögreglu

Tvö sambærileg mál eru nú á borði lögreglu. Einar segir að annað þeirra sé mun alvarlegra en svefnkassamálið og afbrotasaga forráðamannsins löng. Hann vonar að í því falli þyngri dómur en dæma má fólk til allt að 4 ára fangelsisvistar á grundvelli 220. greinar almennra hegingarlaga.