Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lögreglan tjáir sig ekki um rannsókn Rauðagerðismálsins

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkissaksóknari hefur ekki tekið ákvörðun um hvort dómi héraðsdóms í morðmálinu sem kennt hefur verið við Rauðagerði verður áfrýjað. Þetta kemur fram í svari embættis ríkissaksóknara við fyrirspurn fréttastofu. Rannsókn lögreglu hefur verið harðlega gagnrýnd. Lögreglan hyggst ekki tjá sig um rannsóknina að svo stöddu.

16 ára fangelsi

Á miðvikudag dæmdi héraðsdómur Reykjavíkur Angjelin Sterkaj í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Armando Beqirai í Rauðagerði um miðjan febrúar. Hinir þrír sakborningarnir í málinu voru sýknaðir. Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, krafðist þess að dómurinn yfir Angjelin ætti að vera á bilinu 16 til 20 ára en þó nær 20 árum.

Hún sagði morðið hafa verið vel skipulagða aftöku og gaf lítið fyrir játningu Sterkaj í málinu, hún hefði ekki komið fram fyrr en lögreglan hefði lagt fyrir hann ítarleg sönnunargögn í þrettán liðum sem öll bentu til sektar hans. 

Hin þrjú sem voru ákærð í málinu, þau Claudia Sofia Carvahlo, Shpetim Qerimi og Selivrada Mura neituðu öll sök og sögðust ekki hafa vitað hvað Angjelin hefði ætlað sér að gera í Rauðagerði laugardaginn 13. febrúar. Saksóknari taldi að þau ættu ekki að fá vægari refsingu en fimm ár.

Lögreglan tjáir sig ekki um rannsóknina

Morðið í Rauðagerði er ein umfangsmesta morðrannsókn sem komið hefur inn á borð lögreglunnar hér á á landi. Um tíma sátu níu í gæsluvarðhaldi og fjórtán höfðu réttarstöðu sakbornings. Rannsókn málsins hefur verið gagnrýnd.

Sjá einnig: Segir Rauðagerðismálið eitt stærsta klúður lögreglu

Héraðsdómur gerði sérstakar athugasemdir við skjal sem ákæruvaldið lagði fram og ber heitið „samantekt rannsóknardeildar um rannsókn málsins“.  Verjendur sakborninganna gagnrýndu þetta skjal harðlega í réttarhöldunum og héraðsdómur tekur að nokkru leyti undir gagnrýni þeirra. 

Á það er bent í dómnum að undir aðalmeðferð hafi hvorki fengist svör né skýringar á vinnu við gerð skýrslunnar.  Í skjalinu sé meðal annars að finna kenningu, óháð framburði sakborninga. Dómurinn telur skjalið brot á meginreglu um hlutlægnisskyldu lögreglunnar og að slíkt sé ámælisvert.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem fór fyrir rannsókn málsins, segist ekki ætla að tjá sig um rannsóknina eða vinnubrögð lögreglu fyrr en málinu verði að fullu lokið.  

Fyrst þurfi að fara yfir forsendur dómsins

Fréttastofa fékk þau svör frá embætti ríkissaksóknara í morgun að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvort dómi héraðsdóms verði áfrýjað.

Geir Gestsson, verjandi Murats Selivrada, sagði í gær fullvíst að Selivrada myndi sækja bætur til ríkisins. 

Sverrir Halldórsson, verjandi Claudiu Sofiu Carvahlo, sem var sýknuð af ákærunni, vildi stíga varlega til jarðar í samtali við fréttastofu í gær, enda hefði ákæruvaldið sinn frest til áfrýja niðurstöðunni. Hann viðurkenndi þó að þetta væri léttir og að nú yrði það skoðað í góðu tómi hvort bætur verði sóttar til ríkisins

Friðrik Smári Björgvinsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, sagði í gær of snemmt að fullyrða hvort dómnum í Rauðagerðismálinu verði áfrýjað til Landsréttar. Fyrst þurfi að fara yfir forsendur hans.