Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Litríkur draumur

Mynd með færslu
 Mynd: Dr. Gunni - Nei, Ok.

Litríkur draumur

22.10.2021 - 15:43

Höfundar

Nei, ókei er ný plata með hljómsveitinni Dr. Gunni. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Það er gaman að fá tækifæri til að stinga niður penna um nýja plötu Dr. Gunna og ég viðurkenni að ég er búinn að hlakka til. Dr. Gunni, Gunnar Lárus Hjálmarsson, er með slyngustu lagahöfundum íslenskrar dægurtónlistar, með náðargáfu að því leytinu til vil ég meina og af henni höfum við fengið að bergja í hartnær 40 ár. Veri það í gegnum sveitir eins og S.H. draum, Bless og Unun eða í gegnum þessa hljómsveit hér og sólóverkefni sem hafa bæði getið af sér argasta hávaðarokk og blíðustu barnaplötur. Naskur er hann sem lagasmiður en ekki síður sem textasmiður og textar hans einkennast af snilldarlegum hendingum, kímnigáfu og beinskeyttum skotum á ýmislegt sem aflaga fer í samfélaginu. Honum er lagið að draga upp kímileitar myndir af hversdeginum, líkt og Bjartmar, Megas og Valgeir Guðjónsson, en er um leið með algeran og einstakan stíl.

Á þessari plötu er hljómsveit hans, sem heitir eftir honum, með í för en hana skipa í dag eins og síðastliðin tæp 20 ár; Guðmundur Birgir Halldórsson, Grímur Atlason og Kristján Freyr Halldórsson.

Platan er giska fjölbreytt stíllega og það er góð og styrkjandi „djömmum þetta aðeins saman í skúrnum strákar“ ára yfir. „Aumingi með Bónuspoka“ opnar gripinn, hálfgert ræsisljóð blandað hversdagsskáldskapnum sem ég var búinn að minnast á. Lagasmíðin sjálf hressilegt nýbylgjurokk. Gunni viðheldur líka þeim sið sínum að fá hetjur úr íslenskri dægurtónlistarmenningu til liðs við sig. Þannig kemur sjálfur rauðhærði riddarinn, Eiríkur Hauksson, sterkur inn í „Engin mistök“. Nokkurs konur heiðrun til iðnaðarrokksins sem reið röftum í upphafi níunda áratugarins. Það er verið að glotta við tönn um leið og Eiríkur – meistarinn sem hann er – landar þessu öllu saman stórglæsilega. Fjölskrúðugheitin sem ganga í gegnum plötuna vöktu athygli mína. Hér erum við með Stranglers-stemmu (Í Norður-Noregi), „Draumur í dós“ endar með einslags Talking Heads/súrkálsrokksstuði og „Ég er í vinnunni“ er Fall-legt skrýtipönk. Frábærir textar dúkka upp reglulega, nema hvað. Í síðastnefnda laginu segir m.a. „Ég er í vinnunni í vinnunni / Ég er í vinnunni heima“. Mikið sagt í einfaldri setningu. Í „Náttúran er ekki vinur þinn“ segir: „Skýin fela sólina af illgirni / Skýin míga á leiki mannanna / Fjöllin hafa vakað í sextán milljón ár / Er ég rýni inn í bergið sé ég bara berg.“ Vísun í tvo risa í íslensku poppi um leið og potað er í ægifegurð íslenskrar náttúru. Annað er eftir þessu og af alveg sama gæðastaðli. Lögin eru heilt yfir sprúðlandi skemmtileg, alltaf með glúrnum og stundum óvæntum lausnum að hætti Dr. Gunna og maður er eiginlega á bríkinni út plötuna, slík er orkan, gáskinn og gleðin.

Megi Gunnar halda áfram að henda í plötur annað slagið svo lengi sem hann lifi. Þetta er svo rosalega vel yfir meðallagi hjá honum að annað væri synd. Frábær plata!