Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hafsvæði fimm milljóna sjófugla fundið

22.10.2021 - 08:13
Mynd með færslu
 Mynd: dr. Freydís Vigfúsdóttir
Rúmar fimm milljónir sjófugla dvelja hluta vetrar í miðju Atlantshafi. Hafsvæði á stærð við Frakkland þar sem sjófuglinn hefur vetursetu að hluta, hefur fundist. Svæðið er verndað með alþjóðlegum sáttmála. Íslenskir vísindamenn taka þátt í verkefninu SEATRACK þar sem grannt er fylgst með ferðum fuglanna.

79 vísindamenn settu saman dægurritagögn sem þeir höfðu um ferðir sjófugla í Atlantshafi, en dagleg staðsetning er skráð. Hluti svæðis sjófuglanna nýtur nú verndar samkvæmt OSPAR-sáttmálanum um verndun lífríkis sjávar í Norðaustur-Atlantshafi. Erpur Snær Hansen doktor í líffræði er einn þeirra sem fylgst hefur grannt með ferðum fuglanna.

„Við uppgötvuðum það að það er svæði þarna í Norður-Atlantshafinu sem yfir 5 milljónir sjófuglar nýta yfir veturinn. Reyndar eru þetta hvalir og hákarlar og alls konar kvikindi sem að nota þetta svæði líka. En við sem sagt setjum tæki á fuglana sem að segja okkur hvar þeir eru á hverjum degi. Svo fórum við að leggja saman öll þessi mismunandi gagnasöfn sem að þetta fólk sem að er aðilar að þessu lagði í púkkið þá kemur þetta í ljós. Þetta er mjög stórt svæði."

Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt hafsvæði uppgötvast og er lýst með dægurritum. Mikilvægi svæðisins er mikið að sögn Erps og í raun forsenda fyrir núverandi fjölda sjófugla þessara tegunda að miklu leyti.
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir