Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gunnhildur: „Vorum hugrakkar og vildum vinna“

Mynd: RÚV / RÚV

Gunnhildur: „Vorum hugrakkar og vildum vinna“

22.10.2021 - 21:29
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins og einn markaskorara liðsins í 4-0 sigrinum gegn Tékklandi í kvöld, var ánægð með hvernig Ísland mætti sterku liði Tékka.

Tékkar gerðu 1-1 jafntefli við Evrópumeistara Hollands í sínum fyrsta leik í undankeppninni og í síðustu tvö skiptin sem Ísland hefur mætt liðinu hefur niðurstaðan verið 1-1 jafntefli. „Við vissum að við þyrftum sigur þannig að við komum brjálaðar,“ sagði Gunnhildur í viðtali eftir leik en hún var sömuleiðis ánægð með að liðið hefði náð að halda hreinu og skora fjögur mörk. 

Það sýni svo hvað hópurinn sé sterkur að bæði þær sem komu nýjar í byrjunarliðið í dag og þær sem komu inn á sem varamenn spiluðu vel. Liðið var hugrakkt og vildi vinna, var þétt fyrir og fór eftir plani og það hafi gengið í dag. 

Viðtalið við Gunnhildi má sjá í heild sinni í spilaranum hér efst á síðunni.