Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Enginn kostur góður í stöðunni“

Frambjóðandi sem kærði kosningarnar í Norðvesturkjördæmi til Alþingis segir ekki saknæmt að benda á mistök. Annar segir að enginn kostur sé góður í stöðunni. Þrettándi fundur undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa var í dag.

Meðal þeirra sem voru boðuð á fundinn í dag voru Lenya Rún Taha Karim frambjóðandi Pírata og Karl Gauti Hjaltason frambjóðandi Miðflokksins, sem duttu út af þingi við endurtalningu atkvæða. Þau kærðu bæði talninguna til Alþingis og Karl Gauti kærði framkvæmdina einnig til lögreglu.

„Ég var þarna til að fylgja eftir minni kæru til þingsins, var að útskýra hana og svara spurningum nefndarmanna,“ sagði Karl Gauti að fundi loknum.

„Það eru allir í rosalega erfiðri stöðu. Kjörbréfanefnd er í mjög erfiðri stöðu. Það eru væntanlega ennþá fleiri gögn sem eiga eftir að koma í ljós,“ sagði Lenya.

„Þetta er mjög erfitt mál á margan hátt og erfitt fyrir nefndina,“ sagði Karl Gauti.

Lenya og Karl Gauti eru meðal þeirra sem farið er um þungum orðum í bréfi Inga Tryggvasonar, formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi  og tveggja annarra fulltrúa til Alþingis þar sem kærunum er mótmælt. Þar er Lenya sökuð um rangar sakargiftir og refsivert athæfi og kæra Karls Gauta er sögð byggja á röngum forsendum og að hún veki furðu.

Ingi sagði í samtali við Fréttastofu að bréfið segði alla söguna og vildi ekki veita viðtal. 

Ætla ekki að stunda málfundaæfingar

„Ég veit ekki hvort ég eigi að vera að svara svona fullyrðingum og þessu bréfi þeirra,“ svaraði Karl Gauti inntur eftir viðbrögðum við efni bréfsins. „Ég ætla ekki að fara að stunda einhverjar málfundaæfingar við oddvitann í Norðvesturkjördæmi.“

Lenya sagði að sér þætti að Ingi og aðrir fulltrúar í yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi hefðu túlkað kæru hennar þannig að hún væri að ásaka hann. „Það eina sem ég gerði var að draga fram staðreyndir í málinu og ég rökstuddi þær vel í kærunni minni líka. Það er alls ekki saknæmt að benda á mistök,“ sagði Lenya.

Spurður að því hvort honum þætti málflutningur á borð við þann sem er í bréfinu fallinn til þess að stuðla að lausn málsins sagði Karl Gauti svo ekki vera. „Sumt af því sem hann er að benda á, það liggur fyrir. Að kosningalög voru brotin á fjölmörgum sviðum og að hafna því enn þann dag í dag - það er auðvitað ekki svaravert.“

Lenya segist helst vilja ljúka málinu með endurkosningu á landsvísu. „Það væri besti kosturinn í þessu öllu. En ef það verður ekki tekið gilt, þá þyrfti að ógilda kosninguna í Norðvesturkjördæmi. Þá yrðiannaðhvort uppkosning eða fyrri tölur látnar gilda.“

„Það er enginn kostur í rauninni góður eins og komið er fyrir þessu máli,“ segir Karl Gauti. Þú segir að enginn kostur sé góður, en einhverjir hljóta að vera betri en aðrir? „Ég geri kröfu um að fyrri talning verði látin standa.“