Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Baldwin varð tökumanni að bana og særði leikstjóra

epa06632417 (FILE) - US actor and cast member Alec Baldwin arriving for the world premiere of 'Rock of Ages' at Grauman's Chinese Theatre in Hollywood, California, USA, 08 June 2012 (reissued 27 March 2018). Alec Baldwin turns 60 on 03
 Mynd: EPA

Baldwin varð tökumanni að bana og særði leikstjóra

22.10.2021 - 03:36

Höfundar

Kvikmyndatökumaðurinn Halyna Hutchins lést af völdum skotsára við tökur á kvikmyndinni Rust í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum í gær. Alec Baldwin, sem leikur aðalhlutverk myndarinnar, hleypti skotinu af að sögn lögreglunnar. Leikstjórinn Joel Souza er einnig lífshættulega særður eftir að Baldwin skaut hann með byssu úr leikmunadeild myndarinnar. Rannsókn er hafin á því hvers konar skotfæri voru notuð í byssuna.

Kvikmyndatímaritið Deadline hefur eftir fréttatilkynningu lögreglunnar í Santa Fe að lögreglumenn hafi verið sendir á búgarðinn við Bonanza Creek, þar sem vestrinn Rust er tekinn upp. Þau Hutchins og Souza urðu fyrir skoti úr leikmunabyssu sem Baldwin hleypti af. Hutchins var flutt með þyrlu á háskólasjúkrahús Nýju Mexíkó, þar sem hún var úrskurðuð látin. Souza var fluttur með sjúkrabíl á annað sjúkrahús þar sem hann var sendur á bráðadeild. AFP fréttastofan hefur eftir lögreglu að ástand hans sé alvarlegt. Rannsókn málsins er í fullum gangi og vitni á tökustaðnum yfirheyrð.

Hutchins var 42 ára. Hún útskrifaðist sem tökustjóri úr AFI kvikmyndaskólanum í Los Angeles árið 2015 og var valin ein af efnilegri kvikmyndatökustjórum Bandaríkjanna af landssamtökum þeirra árið 2019. Hún birti mynd af tökustað á þriðjudag þar sem starfsmenn kvikmyndarinnar lýstu stuðningi við alþjóðasamtök starfsfólks í leiklistargeiranum, IATSE.

Baldwin, sem er einn framleiðenda vestrans auk þess að leika aðalhlutverkið, birti mynd af sér á tökustað í gærdag. Þar sást hann klæddur fyrir hlutverk sitt sem aðalsöguhetjan Harland Rust. Hann leikur aðalhlutverkið í myndinni og er jafnframt einn framleiðenda hennar. Staðarmiðillinn Santa Fe New Mexican segir hann hafa verið miður sín eftir að hafa gefið lögreglu skýrslu um atvikið.