Kvikmyndatímaritið Deadline hefur eftir fréttatilkynningu lögreglunnar í Santa Fe að lögreglumenn hafi verið sendir á búgarðinn við Bonanza Creek, þar sem vestrinn Rust er tekinn upp. Þau Hutchins og Souza urðu fyrir skoti úr leikmunabyssu sem Baldwin hleypti af. Hutchins var flutt með þyrlu á háskólasjúkrahús Nýju Mexíkó, þar sem hún var úrskurðuð látin. Souza var fluttur með sjúkrabíl á annað sjúkrahús þar sem hann var sendur á bráðadeild. AFP fréttastofan hefur eftir lögreglu að ástand hans sé alvarlegt. Rannsókn málsins er í fullum gangi og vitni á tökustaðnum yfirheyrð.
Hutchins var 42 ára. Hún útskrifaðist sem tökustjóri úr AFI kvikmyndaskólanum í Los Angeles árið 2015 og var valin ein af efnilegri kvikmyndatökustjórum Bandaríkjanna af landssamtökum þeirra árið 2019. Hún birti mynd af tökustað á þriðjudag þar sem starfsmenn kvikmyndarinnar lýstu stuðningi við alþjóðasamtök starfsfólks í leiklistargeiranum, IATSE.
Baldwin, sem er einn framleiðenda vestrans auk þess að leika aðalhlutverkið, birti mynd af sér á tökustað í gærdag. Þar sást hann klæddur fyrir hlutverk sitt sem aðalsöguhetjan Harland Rust. Hann leikur aðalhlutverkið í myndinni og er jafnframt einn framleiðenda hennar. Staðarmiðillinn Santa Fe New Mexican segir hann hafa verið miður sín eftir að hafa gefið lögreglu skýrslu um atvikið.