Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Allt að ár í jafnvægi á orkumarkaði

22.10.2021 - 20:50
Gasleiðsla í Taba í Egyptalandi. - Mynd: EPA / EPA
Hagfræðingur telur að orkumarkaðurinn í Evrópu komist líklega ekki í jafnvægi fyrr en í fyrsta lagi eftir hálft ár. Þýskalandskanslari segir að hækkun orkuverðs megi ekki leiða til bakslags í baráttunni fyrir grænni orku.

Orkuverð hefur hækkað verulega í Evrópu undanfarna mánuði. Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir atvinnulífið víða hafa farið mjög snögglega af stað eftir faraldurinn, eftirspurn aukist bratt og sparnaður heimilanna fari nú frekar í vörur en þjónustu.

„Það að búa til vörur fyrir gríðarlega eftirspurnaraukningu þýðir að verðið hækkar á orkunni þegar margir eru um,“ segir hann.

Þá hafa verið þurrkar í Noregi, Rússar halda að sér höndum hvað varðar gasframleiðslu og ríki hafa neyðst til að kveikja aftur á kolaverum til að anna eftirspurn eftir orku.

„Það þýðir í einhverjum tilvikum að það þarf að kaupa losunarheimildir til að vega upp á móti menguninni og þær eru orðnar svakalega dýrar. Það fer náttúrulega allt inn í verðið á þessari orku sem er verið að framleiða þannig að þetta vísar allt svolítið mikið í sömu áttina,“ segir Ari.

Hann gerir ráð fyrir að framboð af orku mæti eftirspurninni eftir hálft til eitt ár. Verðhækkanirnar hafi þó engin áhrif hér á landi.

„Við erum náttúrulega bara hér úti á hafi ótengd við alla og bara höldum áfram að kaupa okkar rafmagn af Rarik, Orkuveitunni og Landsvirkjun. Það breytist ekki neitt,“ segir Ari.

Á meðan þurfa íbúar víða í Evrópu að eyða meira í orku og það getur reynst mörgum erfitt. Í myndskeiðinu hér að ofan er til að mynda rætt við eina konu sem fer sjaldnar í sturtu vegna orkuverðs og aðra sem óttast að ráðstöfunartekjurnar dugi ekki lengur fyrir mat fyrir börnin sín.

Frönsk stjórnvöld ákváðu í dag að lágtekjuhópar fái hundrað evru eingreiðslu til að koma til móts við aukinn orku- og eldsneytiskostnað. Þá voru orkumálin í brennidepli á leiðtogafundi Evrópusambandsins sem lauk í dag. Angela Merkel, fráfarandi kanslari Þýskalands ávarpaði fundinn í síðasta sinn og sagði að hækkun orkuverðs mætti ekki leiða til bakslags í baráttunni fyrir grænni orku.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV