Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Uppljóstrari verðlaunaður - Samherji á að endurgreiða

Mynd: http://winwingothenburgaward.com / RÚV
Stjórnendur Samherja á Íslandi ættu að þurfa að endurgreiða allt sem þeir tóku frá Namibíu og þá þarf að sakfella fyrir dómstólum. Þetta segir Jóhannes Stefánsson uppljóstrari sem hlaut í dag sjálfbærniverðlaun Gautaborgar. 

Sjálfbærniverðlaunin, sem heita WIN WIN, hafa verið veitt í 20 ár og sett er sérstakt þema í hvert sinn. 

„Allir vita hvernig á að koma af stað sjálfbærri þróun,“ segir Emma Dalväg formaður dómnefndarinnar, „en hvað er það sem stöðvar og stendur í vegi fyrir allri viðleitni okkar? Niðurstaða okkar varð sú að spilling er ein stærsta hindrunin fyrir þeirri þróun sem við viljum sjá.“

Verðlaunaféð nemur jafnvirði fimmtán milljóna króna. Emma segir að leggja verði áherslu á mikilvægi uppljóstrara og að þau sem hafi hugrekki til að berjast gegn spillingu og valdníðslu þurfi mjög oft að gjalda það dýru verði. Þar sé Jóhannes engin undantekning. Hann hafi mátt sæta endurteknu einelti, líflátstilraunum og -hótunum. 

Jóhannes Stefánsson var þakklátur í ávarpi sínu við verðlaunaathöfnina í dag: 

„Þetta skiptir mig sérstaklega miklu máli í barátturinni gegn óréttlæti og ekki aðeins mig því að baki mér stendur heilt þorp og hefur gert í fimm ár. Og sem betur fer þá stækkar þorpið bara og nú í kvöld held ég að það verði mun stærra.“

Hann sagði í viðtali við Fréttastofu í dag að verðlaunin væri viðurkenning fyrir alla uppljóstrara en að þeir séu ekki alls staðar vinsælir nema síður væri. 

„Þetta er stór og mikil þýðing fyrir baráttuna til að klára Samherjaskjalamálið.“

Hann hefur trú á rannsókninni sem er í gangi hjá Héraðssaksóknara. Þar hefur hann réttarstöðu sakbornings og gaf skýrslu í sumar. Þá segir hann að fullur gangur sé á rannsókninni í Namibíu og að hugsanlega verði réttarhöld á næsta ári þar sem hann ber vitni. Hann vonast til að þar verði sakfellt. 

„Það þarf náttúrulega til sakfellingar á Samherjamönnum á Íslandi og ég meina ef það leiðir til sakfellingar á mér þá er það bara hluti af því. Það er ekkert mál af minni hálfu. Þeir þurfa að borga allt til baka sem þeir tóku frá Namibíu.“

Mynd með færslu
 Mynd: http://winwingothenburgaward.com - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: http://winwingothenburgaward.com - RÚV
Frá verðlaunaathöfninni í dag.