Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ungt fólk hlynntara þéttingu byggðar við Bústaðaveg

21.10.2021 - 20:21
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkur, segir ungt fólk frekar styðja þéttingu byggðar við Bústaðaveg en þau sem eldri eru. Ljóst sé að íbúar brenni fyrir hverfið sitt.

Íbúafundur vegna hverfisskipulags Háaleitis og Bústaða hófst á áttunda tímanum í kvöld. Nokkuð líflegar umræður hafa skapast á samfélagsmiðlum og hverfasíðum undanfarið vegna hugmyndanna. Sumir vilja þétta byggðina í kring um Bústaðaveg en aðrir eru algjörlega á móti frekari uppbyggingu á svæðinu.

„Við viljum gjarnan búa til borgargötu, byggja hús að götunni, fjölga íbúðum og búa til Hverfistorg,“ segir Ævar. „Við erum með hugmyndir um bætt aðgengi í fjölbýlishús, græn svæði og um vistlok,“ segir hann.

Hann bendir á að íbúar geti gert athugasemdir við vinnutillögur borgarinnar næstu sex vikurnar. „Þetta er mjög kynslóðaskipt. Unga fólkið tjáir sig minna en er fylgjandi breytingum á meðan fólk á mínum aldri og eldra er íhaldssamara. Síðan fullvinnum við þessar tillögur og þá hefur fólk aftur tækifæri til að segja sína skoðanir sínar,“ segir Ævar.

Hefur fólk raunverulegt tækifæri til að hafa áhrif á þessar tillögur?
„Til þess er leikurinn gerður. Við erum að þessu svo fólk geti tjáð sig og við verðum ekki vör við annað en að áhuginn á skipulagsmálum sé mjög mikill. Fólk brennur fyrir sitt hverfi,“ segir Ævar.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV